Fara í efni
Fréttir

Vilja fá réttarstöðu landeigenda á hreint

„Það sem vakir fyrir okkur er að koma þessu á hreint. Þeir koma fram við okkur eins og landeigendum komi þetta ekki við og fyrst þeir ekki vilja ræða við okkur um endurskoðun og ekki ræða uppsögn þá höfum við enga aðra leið til að koma þessu á hreint.“ Þetta segir Haukur Halldórsson, einn eigenda jarðarinnar Veigastaða í Svalbarðsstrandarhreppi og talsmaður landeigenda Veigastaða um ástæður þess að eigendur jarðanna Halllands og Veigastaða hafa stefnt Skógræktarfélagi Eyfirðinga fyrir héraðsdóm til uppsagnar á leigusamningi frá 1936.

Haukur segir þetta spurningu um réttarstöðu landeigenda gagnvart Skógræktarfélaginu vegna lands sem leigt var undir skógrækt samkvæmt áðurnefndum samningi, þar sem félagið hafi fengið umráðarétt, eingöngu til skógræktar, en landeigendur hafi átt að fá ákveðnar tekjur í tengslum við hana.

Haukur segir hins vegar engin áform vera uppi um framkvæmdir á vegum landeigendanna, aðeins að fá á hreint ákveðinn ágreining sem hefur verið uppi og hann segir tengjast því að Skógræktarfélagið hafi tekið upp á því að túlka samninginn frá 1936 mun þrengra en gert hefur verið. Hann segir stöðuna í dag hafa átt sér ákveðinn aðdraganda, sérstaklega síðastliðin tvö ár þar sem óskað hefur verið eftir endurskoðun vegna breyttrar túlkunar Skógræktarfélagsins á samningnum frá 1936.

Jón Heiðar Rúnarsson skógarhöggsmaður við grisjun í Vaðlareit í október 2021. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Landeigendur eru nokkrir, annars vegar félagsbúið á Halllandi, sem er í eigu tvennra hjóna, og hins vegar hlutafélagið Bjarnagerði, sem er eigandi Veigastaða. Bjarnagerði er í eigu Hauks, eiginkonu, barna hans og tveggja barna bróður hans. Veigastaðir eiga stærstan hluta af því landi sem um ræðir í Vaðlaskógi, um 22 hektara, en eign Halllands er um fimm hektarar.

Látið af hendi, eingöngu til skógræktar

Haukur bendir á að þegar vegur var lagður um Vaðlareitinn á árunum 1987-88 hafi þessi samningur komið við sögu því þá hafi verið farið fram á ákveðna greiðslu fyrir trén sem voru höggvin í vegstæðinu. „Þá fóru menn bara yfir samninginn og það var enginn ágreiningur um það að þær bætur sem voru greiddar fyrir trén sem höggvin voru burtu rynnu að hálfu leyti til landeigenda og hálfu leyti til Skógræktarfélagsins.“ Hann segir að í samningnum standi að trjáhögg skuli kostað til jafns af báðum og því hafi framkvæmdin verið þannig að landeigendur hafi fengið 33%, Skógræktarfélagið 33% og þriðjungur hafi verið lagður í að grisja og hreinsa til, en lítið hefur verið gert af því.

Seinna hafi svo risið ágreiningur varðandi girðingar þegar vegurinn var lagður. Landeigendur hafi þá talið að endurskoða þyrfti samninginn. Skógræktarfélagið hafi ekki haldið við girðingum og einhver leiðindi skapast af því og ágangi sauðfjár. „Þá óskuðum við eftir því að þessi gamli samningur yrði endurskoðaður með tilliti til þess að nú væri kominn vegur, það yrði að girða öðruvísi og ýmislegt fleira var í kringum þetta. Við fórum fram á að samningurinn yrði endurskoðaður, en því var ekkert sinnt og Skógræktarfélagið hefur ekki viljað endurskoða neitt,“ segir Haukur.

Nýjar framkvæmdir kalla á skýrari réttarstöðu

Það að málið er komið í brennidepil núna tengist gerð göngustígs um svæði sem leiðir heitt vatn til Skógarbaðanna og kalt vatn til Akureyrar.

Hann segir landeigendur hafa talið að bætur fyrir trén sem höggvin voru þarna núna ættu að reiknast á sama hátt og 1987-88 þegar vegurinn var lagður. Þá hafi verið talið hvað var höggvið í hverri landareign og greitt samkvæmt því. Nú neiti Skógræktarfélagið að koma nálægt því og segi landeigendur engan rétt eiga á slíku. „Það fer ekkert á milli mála að við eigum landið og Vegagerðin greiðir ákveðnar krónur fyrir fermetra í landi til landeigenda samkvæmt stöðlum sem hún er sjálf með. Við höfum ekkert röflað yfir því. Þannig að við vildum að farið yrði yfir þetta og metið, hvað var af hverri landareign, og við sendum bréf þar um. Því hafnaði Skógræktarfélagið alveg. Við fórum síðan fram á það, af því að félagið var farið að auglýsa þetta sem útivistarsvæði, og ítrekuðum ósk okkar um að endurskoða samninginn. Ég endurtek að við fórum ekki fram á neitt ákveðið, heldur að samningurinn yrði færður til þess horfs að hann gæti staðið. Hann stendur ekki eins og hann er. Það eru fleiri ákvæði sem þar eru ekki efnd. Því hefur aldrei verið svarað.“

Engin skuld við landeigendur í ársreikningi

Haukur segir Skógræktarfélagið hafa metið skóginn sem var felldur og farið fram á bætur frá Vegagerðinni, Norðurorku og sveitarfélaginu. Landeigendur hafi ekki gert kröfur um það, heldur treyst félaginu fyrir matinu, en að í framhaldinu hafi landeigendur fengið því framgengt, sem Skógræktarfélagið hafi ekki ætlað að gera, að verktakakostnaði við að ryðja skóginn yrði haldið alveg sér.

Jón Heiðar Rúnarsson skógarhöggsmaður við grisjun í Vaðlareit í október 2021. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Síðastliðið vor var haldinn aðalfundur og lagðir fram ársreikningar þar sem fram kom að bætur sem fengust fyrir trén voru um 25 milljónir króna. Þar var ekki talin nein skuld við landeigendur. Ég gerði ágreining út af því og sagði að samkvæmt samningi bæri bændum að fá helminginn af því andvirði. Þá var sagt að það geti vel verið að þið eigið helminginn af trjánum, en ekki bótunum.“ Haukur kveðst síðan hafa ítrekað að hann vildi að aðilar málsins settust niður og færu yfir þetta. Þarna væri ágreiningur og Skógræktarfélagið túlkaði samninginn mun þrengra en áður.

„Því var ekki sinnt, sagt að það væri ekki hægt að endurskoða þetta. Þá sendum við þeim bréf þar sem við sögðum upp samningnum vegna vanefnda og fengum svar frá þeim að það væri ekki hægt að segja samningnum upp vegna þess að það væru engin uppsagnarákvæði.“ Haukur segir landeigendur einfaldlega vilja fá réttarstöðu sína á hreint.

Breyting með nýrri stjórn

„Skógræktarfélagið telur, eins og sést í bréfum og öðru sem þeir segja núna, að réttarstaða okkar sé engin. Þó það standi að þetta sé leigusamningur og menn eigi að fá greiðslu fyrir, þá vilja þeir ekkert líta þannig á þetta, segja bara að þetta hafi nánast verið gjafagjörningur á sínum tíma, sem það var ekki,“ segir Haukur.

Aðspurður hvort breyting hafi orðið á samskiptum við Skógræktarfélagið eða stefnu þess með nýju fólki eða nýrri stjórn segir hann svo vera. „Þetta hefur svo sem verið allt í lagi, en þetta er bara sú stjórn sem er nýlega tekin við, formaður og gjaldkeri sem hafa eiginlega gefið okkur fingurinn,“ segir Haukur Halldórsson, einn eigenda Veigastaða í Svalbarðsstrandarhreppi sem stefnt hafa Skógræktarfélagi Eyfirðinga fyrir héraðsdóm til uppsagnar á leigusamningi frá 1936 um land sem tekið var undir skógrækt.