Fara í efni
Fréttir

Vika „Heimsmarkmiða SÞ“ á Amtsbókasafninu

Amtsbókasafnið tekur þátt í Viku 17. Samsett mynd.

Amtsbókasafnið er fyrsta íslenska bóksafnið til þess að taka þátt í svokallaðri Viku 17, eða viku Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Alla vikuna, frá mánudeginum 22. apríl - mánudagsins 29. apríl, er Plokk Bingó í gangi. Þáttakendur eru þá hvattir til þess að fara út að plokka rusl og svo er hægt að nálgast bingóspjöld á safninu og fylla út í mismunandi tegundir rusls. Sigurvegari í bingóinu fær heiðurstitilinn Plokkari Akureyrar 2024

Fimmtudaginn 25. apríl verður veisla fyrir bragðlaukana, en þá opnar Alþjóða eldhúsið á Amtsbókasafninu. Þar kynna Akureyringar af ólíkum uppruna matarmenningu sína og bjóða smakk af ýmsum þjóðarréttum. Viðburðurinn tengist markmiði 10, um aukinn jöfnuð og þátttöku óháð bakrgrunni. Viðburðurinn er styrktur af Norðurorku, Papco og Akureyrarbæ.

Föstudaginn 26. apríl verður skartgripasmiðja fyrir 10-18 ára þar sem eingöngu er unnið með endurnýtt efni. Viðburðurinn er hluti af Barnamenningarhátíð Akureyrarbæjar og tengist markmiðum nr. 11 um sjálfbærar borgir og samfélög, og 13, um aðgerðir í loftslagsmálum. Barnamenningarsjóður Akureyrarbæjar styrkir.

Laugardaginn 27. apríl fer fram bývaxpappírssmiðja fyrir 10-18 ára. Gundega Skela kennir hvernig eigi að búa til umhverfisvænar býflugnavaxumbúðir sem hægt er að nota í stað plastfimlu. Viðburðurinn tengist einnig markmiðum nr. 11 og 13. Viðburðurinn er styrktur af Barnamenningarjsóði Akureyrarbæjar.

Vika 17 var fyrst haldin í Danmörku, en tilgangurinn er að hvetja bókasöfn til þess að heiðra heimsmarkmiðin með viðburðum og fræðslu tengdum markmiðunum. Amtsbókasafnið tekur nú þátt í fyrsta skipti, fyrst íslenskra bókasafna.