Fara í efni
Fréttir

Viðvörun: Spáð miklu hvassviðri á morgun

Á morgun verður mjög hvasst um norðanvert landið og ljóst að það verður ekkert ferðaveður ef veðurspá gengur eftir. Skjáskot af vedur.is.

Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula veðurviðvörun sem nær yfir Norðurland eystra, Norðurland vestra og Strandir og Vestfirði. 

Spáin fyrir Norðurland eystra er sunnanátt, 18-28 metrar á sekúndu í fyrramálið, frá kl. sjö til hádegis, og staðbundnar hviður yfir 30 metrum á sekúndu. Veðurstofan segir varasamt ferðaveður á ferðinni, einkum fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.  

Frá hádegi og fram á kvöld er spáð suðvestan 20-28 metrum á sekúndu og staðbundnum hviðum yfir 40 metrum á sekúndu, einkum vestantil.

Ljóst er að það sem von er á er alls ekkert ferðaveður. Nauðsynlegt er að ganga frá lausamunum til að fyrirbyggja foktjón og er fólki bent á að sýna varkárni.

Sjá nánar á vedur.is.

Samkvæmt veðurefnum blika.is verður hiti á bilinu 7-12 gráður á morgun og ekki víst að vindur verði mikill hér á Akureyri. Spálíkan Bliku gerir ráð fyrir áframhaldandi hlýindum eins og sjá má á myndinni hér að neðan.