Fara í efni
Menning

Viðurkenning fyrir brautryðjendastarf

Viðurkenning! Frá vinstri: dr. Rúnar Leifsson, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, Kristjana Agnarsdóttir og Snorri Guðvarðsson.

Hjónin Snorri Guðvarðsson og Kristjana Agnarsdóttir hlutu á dögunum Minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar Íslands árið 2024 fyrir brautryðjendastarf í þágu húsverndar á Íslandi. Viðurkenningin var afhent á ársfundi stofnunarinnar.

„Öldum saman hafa góðir handverksmenn verið eftirsóttir og verk þeirra lofuð. Þegar kemur að viðhaldi og viðgerðum á byggingararfi þjóðarinnar eru góðir handverksmenn í lykilhlutverkum,“ sagði dr. Rúnar Leifsson, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, þegar hann afhenti þeim hjónum viðurkenninguna.

Rúnar sagði að í verkum Snorra og Kristjönu sameinist fagþekking, reynsla og listhneigð eða svo vitnað sé til Snorra sjálfs: „Þetta er ákveðin kúnst. Það getur ekki hver sem er stokkið í þessi verk með okkur. Við segjum stundum að maður þurfi að vera málari, listmálari og föndrari í sér og búa auk þess yfir ómældri þolinmæði.“

Fékk málaraiðnina beint í æð

Snorri Guðvarðsson málarameistari fæddist á Siglufirði 16. febrúar 1953 en fluttist ungur að árum til Akureyrar þar sem hann ólst upp í húsinu Berlín, Aðalstræti 10. „Segja má að hann hafi fengið málaraiðnina beint í æð því faðir hans var Guðvarður Jónsson málarameistari,“ sagði forstöðumaður Minjastofnunar á ársfundinum.

Snorri lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1973 en samhliða því var hann á samningi sem lærlingur hjá föður sínum í málaraiðn og lauk í framhaldi málaraiðnnámi frá Iðnskólanum á Akureyri.

Kristjana Agnarsdóttir málari fæddist 28. apríl 1962 á Akureyri, hún vann við ýmis störf áður en hún fór að vinna með Snorra upp úr árinu 2000 og lærði í kjölfarið málaraiðn í Verkmenntaskólanum á Akureyri. „Kristjana er einnig mikil handverkskona og áhugaljósmyndari,“ sagði Rúnar.

76 kirkjur!

Starfsferill Snorra spannar tæp 50 ár og þar af hefur Kristjana verið með honum í meira en 20 ár. Sérsvið þeirra hjóna er innanhússmálun á friðlýstum og friðuðum kirkjum og húsum um land allt „ og er óhætt að segja að þau séu meðal fremstu sérfræðingar landsins á þessu sviði. Þau leggjast í rannsóknir á eldri málningarlögum og litasamsetningum og færa litaval og málningaráferð til upprunalegs horfs. Þau hafa sérhæft sig í viðar- og marmaramálun, gyllingu og alls kyns skreytingum ásamt vinnu með línolíumálningu og önnur efni fyrri tíma sem krefjast sérþekkingar og sérstakrar meðhöndlunar,“ sagði Rúnar Leifsson og bætti við: „Þau hafa unnið við málun og viðgerðir á að minnsta kosti 76 kirkjum víðsvegar um landið sem og við mörg hús í húsasafni Þjóðminjasafnsins í gegnum árin auk annarra friðlýstra húsa víðvegar um landið. Má þar nefna Fríkirkjuveg 11 í Reykjavík, Jensenshús á Eskifirði, Sómastaði við Reyðarfjörð og Litla-bæ í Skötufirði við Ísafjarðardjúp.“

Litaspjöld fyrir öll gömlu húsin

Í heimabænum, Akureyri, hafa þau hjónin unnið við málun á mörgum af elstu húsum bæjarins eins og Gamla spítala (Gudmanns Minde), Nonnahúsi, Friðbjarnarhúsi, Sigurhæðum, Menntaskólanum (Gamla skóla), Samkomuhúsinu auk annarra húsa í einkaeigu. „Sem dæmi um ástríðu fyrir handverkinu er að þau skildu eftir litaspjöld fyrir öll gömlu húsin í eigu Akureyrarbæjar til að vandað yrði til verka við málum þeirra til framtíðar. Öll þau hús sem þau hjónin koma að hafa tekið stakkaskiptum í höndum þeirra, eru þjóðarprýði og bera hæfileikum þeirra fagurt vitni.“

Framkvæmdastjóri Minjastofnunar sagði að lokum, þegar hann afhenti hjónunum viðurkenninguna: „Snorri og Kristjana, Minjastofnun Íslands þakkar ykkur kærlega fyrir ykkar mikilvæga framlag til minjaverndar undanfarna áratugi!“