Viðræður um sleðabraut í Hlíðarfjalli
Hugmynd um sleðabraut í Hlíðarfjalli hlaut náð fyrir dómnefnd, umhverfis- og mannvirkjaráði og nú síðast bæjarráði Akureyrarbæjar og hefur sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs og formanni fræðslu- og lýðheilsuráðs verið falið að hefja viðræður við umsækjanda.
Umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar auglýsti eftir nýrri afþreyingu á eða í kringum svæði Hlíðarfjalls. Óskað var eftir umsóknum í opnu útboði í gegnum útboðsvef bæjarins og bárust aðeins tvær umsóknir. Dómnefnd fór yfir tillögurnar og valdi hugmyndina um sleðabraut, en hin hugmyndin stóðst reyndar ekki lágmarkskröfur. Akureyri.net er ekki kunnugt um hver stendur að baki hugmyndinni enda kemur einungis fram númer umsækjanda fyrir hönd óstofnaðs félag í umsögn dómnefndar.
Engin slík til hér á landi
Hér er um að ræða sleðabraut, eða sem á ensku er kallað „Alpine Coaster“ og er mjög vinsæl og fjölskylduvæn afþreying sem á uppruna sinn í Ölpunum en má nú finna í flestum löndum heims, eins og segir í umókninni. Engin slík braut hafi þó verið sett upp á Íslandi. Gert er ráð fyrir að setja sleðabrautina neðan við bílastæði skíðasvæðisins. Í uppbyggingunni felst eingöngu uppsetning brautarinnar sjálfrar og þjónustuhúss undir vélbúnað.
Fram kemur í umsókninni að framkvæmdin sjálf sé afturkræf. Brautin komi til með að liggja að minnsta kosti 30 sentímetrum frá jörðu og hvíli ekki á jarðveginum sjálfum. Undirstöður séu pinnaðar niður í jörðina og því í raun hægt að taka brautina niður og setja upp aftur á örfáum dögum. Umsækjandi telur uppsetningu slíkrar brautar samræmast vel núverandi deiliskipulagi Akureyrar sem umhverfisvæn afþreying úti undir beru lofti á svæði sem þegar er skilgreint undir slíka starfsemi. Auðvelt sé að tryggja að brautin liggi ekki þannig að hún komi í veg fyrir þá hefði sem þarna hefur skapast að „skíða niður í byggð“.
Fram kemur í greinargerð með umsókninni að sleðabrautir séu mjög fjölskylduvæn afþreying og ekki síður fyrir börn en fullorðna. Aldurstakmark er þriggja ára og munu börn þriggja til níu ára geta rennt sér í fylgd með fullorðnum. Börnum sem eru níu ára og eldri er heimilt að fara ein. Vagnarnir eru hannaðir fyrir tvo með hámarksþyngd 150 kíló á vagn.
Myndirnar hér að neðan eru úr greinargerð með umsókninni og sýna legu sleðabrautarinnar samkvæmt hugmyndunum.df