Viðbyggingu ráðhúss aðeins slegið á frest
Áformum um viðbyggingu við Ráðhús Akureyrar hefur verið slegið á frest, en ekki hefur verið hætt við verkefnið. Þetta kemur fram í svari Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra við fyrirspurn Akureyri.net. Ástæða þess að ekki var haldið áfram með verkefnið er að núverandi meirihluti ákvað við gerð fjárhagsáætlunar haustið 2022 að leggja áherslu á önnur verkefni en að byggja við ráðhúsið.
Ástæða vangaveltna um hvað varð um þessi áform er að bæjarráð Akureyrarbæjar samþykkti í sumar nýjan húsaleigusamning við Reyki fasteignafélag ehf. um fasteignina Glerárgötu 26, en þar eru velferðarsvið og fræðslu- og lýðheilsusvið til húsa. Leigusamningurinn er til 15 ára og gerir ráð fyrir að húsnæðið verði uppfært og endurbætt. Fulltrúar V-lista bókuðu við þessa afgreiðslu bæjarráðs og leggja þann skilning í málið að meirihlutinn hafi hætt við áformin um viðbyggingu ráðhússins.
Yrki vann hönnunarsamkeppnina
Í mars 2021 var efnt til forvals vegna hönnunarsamkeppni og 15. júlí sama ár var tilkynnt að dómnefnd hefði ákveðið að veita Yrki arkitektum 1. verðlaun fyrir tillögu að viðbyggingu og endurbótum og var sú tillaga því valin til frekari hönnunar og útfærslu. Fjórtán umsóknir bárust í forvalinu og var fjórum arkitektastofum boðið að taka þátt í hönnunarsamkeppninni.
Í vinningstillögunni er nýr aðalinngangur á milli nýja skrifstofuhlutans og núverandi ráðhúss.
Núverandi aðalinngangur er aflagður og austurhlið hússins færð í upprunalegt horf, en upphaflegur aðalinngangur heldur sér sem aðkoma fyrir starfsfólk.
Í fréttatilkynningu bæjarins þegar tilkynnt var um niðurstöðu dómnefndar segir meðal annars að markmiðið með framkvæmdinni sé að færa alla miðlæga starfsemi Akureyrarbæjar á einn stað, en stjórnsýslan hefur verið til húsa bæði í Geislagötu 9 og Glerárgötu 26. „Með því að sameina alla stjórnsýslu sveitarfélagsins undir einu þaki í húsnæði sem er alfarið í eigu Akureyrarbæjar næst fram umtalsvert hagræði og mun lægri rekstrarkostnaður til lengri tíma litið,“ segir einnig í tilkynningunni.
Bráðnauðsynlegar endurbætur í Glerárgötunni