Fara í efni
Mannlíf

Víða verður blómlegt í dag og á konudaginn

Valentínusardagurinn, í dag 14. febrúar, og konudagurinn þann 23. febrúar eru stórir dagar hjá blómasölum. Hér er Stefán annar eigandi blómabúðarinnar Býflugan og blómið með fallega vendi sem verða þar í boði.

Í dag er Valentínusardagurinn, konudagurinn er þann 23. febrúar og 8. mars er alþjóðlegur dagur kvenna. Allt eru þetta stórir söludagar í blómaverslunum landsins. En hvers konar blóm skal velja fyrir ástina?

„Það er best að velja það sem þér finnst fallegt og svo auðvitað súkkulaði með,“ segir Hanna Björg Héðinsdóttir, starfsmaður Blómabúðar Akureyrar í Kaupangi þegar blaðamaður Akureyri.net fór á stúfana til að fá svar við því hvers konar blóm væri best að kaupa fyrir makann á þessum dögum. „Blóm gleðja alltaf, en svo er líka gaman að láta eitthvað annað fljóta með blómunum eins og til dæmis ilmkerti eða súkkulaði,“ segir Hanna Björg .


Blóm, falleg orð og súkkulaði. Allt þetta fæst í Blómabúð Akureyrar og í Býflugan og blómið og ætti að gleðja bæði á Valentínusardaginn, konudaginn og alla aðra daga ársins þegar tilefni er til þess að færa ástinni glaðning. 

Brjáluð yfir ljótum vendi

Eigendur verslunarinnar Býflugan og blómið, þau Stefáni J.K. Jeppesen og Bára Magnúsdóttir, taka í sama streng. Segja þau að gott sé að fylgja eigin sannfæringu þegar verið er að velja blóm til þess að gefa. „En svo er auðvitað annað mál hvort það sem þér þykir fagurt falli í kramið hjá þiggjandanum. Við höfum alveg fengið konu brjálaða hingað inn sem kvartaði yfir því hvaða hryggð hún væri að fá. Hún kom og skilaði blómvendinum, en það var ekkert að blómunum, henni fannst bara vöndurinn ekki vera fallegur, en maðurinn hennar sérvaldi í vönd handa henni og var voða ánægður með hann,“ segir Bára. „Sem betur fer er þetta undantekning. Ef blómin eru ekki orðin ónýt í í meðförum fólks þá getum við svissað þeim út og þá verða vonandi allir á endanum glaðir, við erum hér til þess að gleðja fólk,“ bætir Stefán við.


Hanna Björg og Anna Jóna hjá Blómabúð Akureyrar, klárar í vertíðina sem framundan er. 

Valentínusardagurinn vinsæll hjá nýbúum

Lengi vel fussuðu margir yfir því að verið væri að taka Valentínusardaginn upp hér á landi en Stefán og Bára hjá Býflugunni og blóminu   segja að með auknum fjölda útlendinga á Íslandi þá hafi Valentínusardagurinn sjálfkrafa stækkað og fest sig í sessi, enda dagurinn mjög vinsæll víða erlendis.  Að sögn Hönnu Bjargar hjá Blómabúð Akureyrar eru rósirnar alltaf langvinsælastar á Valentínusardaginn, stakar eða í vendi, enda rauði liturinn, litur ástarinnar, allsráðandi í öllu þann dag. Ekki er verra ef hjörtu í einhverju formi fylgi með blómunum, t.d. hjartalaga súkkulaði. Fjölbreytileikinn er hins vegar meiri á konudaginn og vendirnir alls ekki bara rauðir þá. Eins eru ekki allir sem kaupi afskorin blóm, pottaplöntur séu einnig vinsælar til gjafa, enda lifi þær lengur og sumar konur líka hrifnari af þeim en afskornum blómum.

Þjóðarblóm Suður Afríku, Protea, er fallegt í vönd eða bara eitt og sér, en það stendur lengi.  Á Valentínusardag gefa bæði kynin hvort öðru ástargjafir á meðan Konudagurinn er eingöngu fyrir konurnar, en það má vel nýta Valentínusardaginn til að hita upp fyrir konudaginn sem er rúmri viku seinna. 

Protea blómið er líka fallegt þurrkað. Hér má sjá þrjár mismunandi tegundir af því.  Blómið er í uppáhaldi hjá Báru í blómabúðinni Býflugan og blómið og mælir hún með því í konudagsvöndinn. 

Þjóðarblóm Suður Afríku fallegt

„Ég er sjálf mjög hrifin af þjóðarblómi Suður Afríku, Protea. Við tökum það inn fyrir konudaginn og fyrir stærri daga. Það er til í mörgum útgáfum en þetta blóm er svolítið gróft, stönglarnir eru trjákenndir og það brýst upp úr eyðimörkinni í þessari miklu fegurð,“ segir Bára og bætir við að blómið standi lengi og sé einnig mjög fallegt þurrkað. „Ef ég væri að gera vönd handa sjálfum mér myndi ég velja ilmskúr, ljónsmunna og rósalilju, svona mörg hvít blóm saman,“ segir Stefán sem persónulegast er hrifnastur af hvítum blómum. Stefán og Bára segja það annars vera  gleðilegt hversu margir karlmenn gefi konum sínum blóm án þess að vera minntir á það með ákveðnum dögum. konudagurinn er hinsvegar alveg heilagur hjá mörgum og ef blómin gleymast þá er komið í fáti í blómabúðina daginn eftir til að bjarga málunum. Blómabúð Akureyrar setti upp blómasjálfsala fyrir utan verslunina hjá sér fyrir einu og hálfu ári síðan sem hefur gert stormandi lukku en þar er hægt að kaupa blóm allan sólarhringinn ef einhver er að gleyma sér.  Þá er rétt að geta þess að báðar blómabúðirnar verða með sunnudagsopnun á konudaginn frá kl. 8 um morguninn og fram eftir degi.

Það er gott að vita af blómasjálfsalanum við Blómabúð Akureyrar ef einhver er að gleyma að kaupa blóm á Valentínusar- eða konudaginn. Inni í versluninni er einnig gott úrval af gæðasúkkulaði.