Fara í efni
Umræðan

Við viljum meira

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað myndi gerast ef okkur tækist að breiða út þann boðskap að það séu eftirsóknarverð lífsgæði að vera ánægður með það sem maður hefur, lifa sáttur við sitt, vera nægjusamur, hógvær, heiðarlegur, gjafmildur og bara almennt góð manneskja upp á gamla mátann. Við myndum ekki láta stjórnast af öfund, eigingirni, gerviþörfum, auglýsingum, algrími, áhrifavöldum og nettröllum. Við þyrftum ekki að eltast við brjóstastækkanir, varafyllingar, húðflúr, merkjavörur, smáhunda, fræga fólkið, sjálfur, töframeðul og tryllingslegt djamm.

Það er vel hægt að sjá það fyrir sér að ef við myndum einfalda líf okkar og komast nær kjarnanum í mannlegu samfélagi þá myndi líkamlegum og streitukenndum kvillum fækka, þunglyndi og sálarangist hörfa, félagskvíði sömuleiðis og líðan fólks yrði betri og samskipti öll heilbrigðari. Við myndum eyða öllum biðlistum í heilbrigðiskerfinu og Landspítalinn færi létt með að sinna hlutverki sínu. Lyfjanotkun myndi hrynja og afföll af vinnumarkaði minnka stórlega.

Þetta myndi líklega þýða hrun hins vestræna hagkerfis og þeirrar menningar sem við höfum alist upp við og kappkostað að fylgja. Kerfið gengur nefnilega út á það að ala á öfund og óánægju, maður má aldrei una sáttur við sitt, mann skal alltaf langa í meira, stærra, nýrra, flottara. Það er þessi eilífi samanburður og áunnin minnimáttarkennd, óttinn við að aðrir séu á einhvern hátt að skora meira en við, kvíðinn yfir því að rísa ekki undir sívaxandi kröfum og svo flóttinn frá raunveruleikanum þegar hann er orðinn íþyngjandi og þá á maður náttúrlega skilið að fá smá huggun, s.s. í neyslu af einhverju tagi.

Að búa til vanda og selja lausnir

Sennilega mætti kalla þetta miskunnarlaust neysluþjóðfélag. Kauptu, notaðu stutt eða lítið, hentu og kauptu nýtt. Hring eftir hring. Marga hringi á ári. Við kaupum vörur sem endast stutt því þær mega ekki vera eins vandaðar og í gamla daga því þá gætu tannhjól neysluþjóðfélagsins bilað. Við kaupum vörur sem við höfum enga þörf fyrir. Við hrúgum upp húsgögnum, raftækjum, fötum, snyrtivörum, fæðubótarefnum og öllum fjáranum og linum svo samviskubitið yfir ofgnóttinni með að því að sturta affallinu niður við Rauða krossinn og Hertex. Það er að segja þeir sem þó hafa enn einhverja samvisku.

Við sköpum vandamál til að geta síðan selt lausnir. Er það tilviljun að í grennd við marga húðflúrara hafa sprottið upp stofur þar sem boðið er upp á húðflúraeyðingu með leysigeislum? Svipað með hvers kyns fegrunaraðgerðir og fyllingar, fyrst að borga fyrir áfyllingu og síðan þarf að borga fyrir tæmingu. Jafnvel sami aðilinn sem gefur og tekur og það er sannarlega ekki ókeypis. Dælum nikótíni, koffíni, kannabis og áfengi í ungdóminn og græðum vel á því en látum svo aðra um að fást við afleiðingarnar. Og þó. Kannski ættu þessir fíkniefnasalar að bjóða upp á meðferð líka. Já, gerum uppvaxandi kynslóð að kvíðasjúklingum, vímuefnafíklum, tölvufíklum, sjálfufíklum, samskiptamiðlafíklum og hendum greiningum og bókstöfum á þetta allt saman því það er svo atvinnuskapandi að reyna að vinna bug á verstu tilfellunum síðar meir.

Þeir hörðustu halda því jafnvel fram að kerfið sé markvisst að búa til sjúkdóma og vansæld því lyfjaframleiðendur séu tilbúnir með meðulin og það séu þeir sem stjórna heiminum í raun. Sumir nefna líka vopnaframleiðendur, olíufursta, vefmiðlamógúla, tóbaksframleiðendur, eiturlyfjabaróna, klámkónga og fleiri. Ekki nema von að þeir sem standa fyrir fræðslu, forvörnum og einföldu, heilbrigðu lífi megi sín lítils.

Sannkallað hundalíf

Allt í lagi, ég skal róa mig. Ég get alveg skilið einstakling sem langar í smáhund á 700 þúsund, jafnvel þótt hann sé með tvö ung börn, vegna þess að „allir“ eru að fá sér hund. Sumir fá sér jafnvel annan hund til að leika við hinn hundinn. Sumir vita reyndar ekki alveg hvers vegna þeir voru að fá sér hund, kannski út af samanburði við vinafólk, kannski var þetta gaman fyrst en svo fyllast heilu hverfin af gjammandi smáhundum sem lifa sannkölluðu hundalífi, einir úti í glugga daglangt. Ég skil reyndar frekar þá sem fá sér kött en þar sem ég er Akureyringur ætla ég ekki nánar út í þá sálma. Auðvitað eru líka mýmargir hundaeigendur hið ágætasta fólk en sem fyrr eru það svörtu sauðirnir sem koma óorði á heildina. Kannski gekk gæludýrafárið líka of langt í kófinu og þess vegna heyrum við fréttir af fólki sem keyrir burt með hund og kött og skilur eftir á afskekktum stað.

Á hinn bóginn skil ég ekki hvers vegna við hendum börnunum okkar fyrir hraðlest tækninnar og neysluhyggjunnar og fyrirgerum rétti þeirra til tengslamyndunar og að alast upp í öruggu umhverfi. Jú, sennilega af því að við erum stödd þarna sjálf, foreldrarnir og jafnvel ömmur og afar. Það er nánast enginn hann sjálfur lengur, aðeins viljalaust verkfæri, tannhjól í neyslunni, strengjabrúða algrímis markaðsaflanna. Fastur á fésbókinni. Trylltur á tístinu. Með afturendann á instagramminu. Rorrandi í rauðvíninu. Slompaður í slúðurdálkunum. – Gunni Helga ætti að skrifa bækur með þessum titlum. Reyndar er bókin að syngja sitt síðasta, upplestur á neti er tekinn yfir og tappar í eyrum ungdómsins tryggja að bein samskipti við aðra séu hæfilega lítil.

Fórnum ekki frelsinu

Stundum liggur við að maður skilji hvötina á bak við gerræðislegar ákvarðanir sumra ráðamanna gegnum tíðina eins og að banna áfengisneyslu, samskiptamiðla, ferðalög, böll, bikini, sjálfstæða fjölmiðla og frelsi einstaklingsins yfirhöfuð. Þetta eru ríki sem byggjast ekki á lýðræði. Stóri bróðir telur sig þurfa að hafa vit fyrir þegnunum og miðstýra þeim eftir settum reglum. Slíkan fasisma viljum við auðvitað ekki og iðulega býr annað undir hjá einræðisherrum en umhyggja fyrir heilsu og velferð þegnanna.

Við megum aldrei fórna frelsinu og lýðræðinu, einstaklingsfrelsið er mikilvægt, tjáningarfrelsið nauðsynlegt, kynfrelsi, búsetufrelsi, atvinnufrelsi; allir þessir hornsteinar samfélagsins verða að vera traustir. Hins vegar megum við ekki vera hrædd við að setja reglur og ramma sem byggja á reynslu og þekkingu. Það eru leikreglur í lífinu eins og t.d. í handbolta og án uppeldis, aðhalds og sameiginlegs skilnings á rammanum yrði frelsið taumlaust og dýrslegt og afleiðingarnar óskaplegar. Hrun siðmenningar. Því miður finnst mér þetta hrun byrjað þrátt fyrir allt frelsið. Of margir ráða ekki yfir lífi sínu eða við líf sitt. Of mörgum líður illa. Áreitið er of mikið, hraðinn of mikill, hávaðinn yfirgengilegur og aldrei tóm til að ræða saman og vinna úr upplýsingum, þeim er bara dælt látlaust í okkur og maður er hvergi óhultur – nema kannski á rólegum degi við Botnstjörn í Ásbyrgi þar sem friðurinn einn ríkir.

Ég er ekki að boða afturhvarf til fortíðar. Ég er heldur ekki að reyna að breyta öðrum en sjálfum mér enda er það ærið starf. Ég er ekki áhrifavaldur og vinnan við þessa grein er því ekki kostuð og ég er ekki að selja töfralausnir og tek því ekkert fyrir eftirfarandi ráðleggingar: Kyrrum hugann, lokum á athugasemdakerfin, forðumst neikvæðni og niðurrif, hvílum okkur á samskiptamiðlum, gefum streymisveitum frí, skrúfum fyrir auglýsingar, hættum að bera okkur saman við aðra, förum út í náttúruna, tölum saman, lesum bók. Já, ræktum líkama og sál, reynum að koma okkur í lag svo við getum látið gott af okkur leiða.

Lifið heil.

Höfundur er íslenskukennari og rithöfundur

Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar!

Skúli Bragi Geirdal skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 06:00

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15