Fara í efni
Fréttir

„Við þurfum að ýta undir þá sem þora og fagna þeim“

Sesselja Barðdal á fjórðu hæð Landsbankahússins við Ráðhústorg en þar verður Messinn til húsa, samskomustaður skapandi og kraftmikils fólks, fyrirtækja og fræðanets. Framkvæmdir eru á lokametrunum en stefnt er að opnun í lok október.

Sesselja Barðdal, framkvæmdastýra Driftar EA, vill sjá hugarfarsbreytingu í nýsköpun á Norðurlandi og hvetur Akureyringa til að styðja betur við fólk með nýjar hugmyndir. Drift EA mun á næstunni opna frumkvöðla- og nýsköpunarsetur í miðbæ Akureyrar.

Drift EA er með metnaðarfullar hugmyndir um að virkja fólk á Akureyri í nýsköpun og ætlar að bjóða frumkvöðlum upp á víðtækan stuðning til að koma hugmyndum sínum áfram, en eitt af markmiðum félagsins er að til verði ný fyrirtæki á Akureyri. „Það hefur verið lítil endurnýjun á þessu svæði þegar kemur að framleiðslufyrirtækjum Við höfum misst flott fyrirtæki hérna eins og Börkinn, Kexsmiðjuna og fleiri og það er alveg áhyggjuefni. Það þarf að koma nýtt hugvit og tækni hingað, annars er hætta á að allt unga fólkið okkar fari í burtu. Við viljum ýta úr vör fyrirtækjum sem eru líkleg til að laða að ungt fólk með hugvit og ástríðu fyrir því að byggja upp samfélag sem börnin okkar langar að búa í,“ segir Sesselja sem iðar í skinninu eftir því að starfsemi Driftar EA fari í fullan gang. Sjálf hefur hún komið nálægt nýsköpun með ýmsum hætti undanfarin ár en segist hafa beðið lengi eftir því að Akureyri fengi sitt eigið nýsköpunar- og frumkvöðlasetur, sem Drift EA er.

Það styttist í að frumkvöðla- og nýsköpunarsetur opni í Landsbankahúsinu við Ráðhústorg.  Teikning: Jensson hönnunarhús 

Víðtækur stuðningur við frumkvöðla

Eins og Akureyri.net hefur áður greint frá er Drift EA að vinna að opnun frumkvöðla- og nýsköpunarseturs í Landsbankahúsinu við Ráðhústorg. Starfsemin þar verður tvíþætt. Annars vegar eru valin inn frumkvöðlaverkefni sem fá mjög víðtaka aðstoð til að eiga möguleika á að koma sér áfram og hins vegar er boðið upp á vinnuaðstöðu og samfélag fyrir fólk sem finnst spennandi að vera í nálægð við nýsköpun.

„Þeir frumkvöðlar/fyrirtæki sem komast inn í Hlunninn (e. Incubator) fá í raun víðtækan stuðning í ákveðið langan tíma. Þetta er ekki nýsköpunarhraðall þar sem allt þarf að gerast mjög hratt. Við þarfagreinum verkefnin og það verða settir árángursmælikvarðar fyrir hvert og eitt verkefni. Við erum með hóp sérfræðinga, svokallaða Driftara, sem hafa aðstöðu í húsinu og munu aðstoða frumkvöðlana við að koma sínum verkefnum áfram. Þetta er öflugur hópur fólks frá Háskólanum á Akureyri, Cowi, Deloitte, Eflu, Enor, Geimstofunni og KPMG. Samstarfið snýst um nýsköpun á Norðurlandi. En við munum líka alveg vera hreinskilin við fólk ef hugmyndirnar eru ekki að fara neitt, þá þarf fólk að fara út og við veljum aðra inn,“ segir Sesselja sem segir að það sé ekki endilega neinn ósigur því oft þegar farið er á dýptina með hugmyndir þá breytast þær og það kemur oft í ljós að einhver önnur hugmynd sé betri. „Hugmyndin er sú að frumkvöðlarnir séu hér og sinni hugmyndinni sinni og hafi bæði tíma og tækifæri til þess. Oftast er það nefnilega þannig með nýjar hugmyndir, og sérstaklega út á landi vil ég meina, þá er fólk að vinna með svo margt annað, að það nær ekki að sinna hugmyndinni nema í hjáverkum og kemst þess vegna lítið eða ekkert áfram.“ Þá segir Sesselja að Drift EA muni ekki heldur bíða eftir því að fólk hafi samband við þau, þau muni líka hafa samband við fólk og koma á tengslum og verkefnum að fyrra bragði t.d. milli fyrirtækja og frumkvöðla. Í því sambandi hefur Drift EA m.a verið að horfa til sænska frumkvöðla- og nýsköpunarfélagsins Sting sem hefur ná mjög góðum árangri í nýsköpun innan starfandi fyrirtækja.

Horft yfir Ráðhústorgið. Drift EA er til húsa á besta stað í miðbæ Akureyrar. 

Áhugi frá öllu landinu

Sesselja segir að allar hugmyndir séu velkomnar inn á borð Driftar EA, stórar sem smáar, en eins og áður segir verða þó þau verkefni sem komast inn í Hlunninn handvalin og verkefnin fá sérsniðin stuðning skv. þeirra þörfum. Áður en lengra er haldið er við hæfi að fá Sesselju til að skilgreina hvað frumkvöðull er, ef einhver lesandi velkist í vafa um það.

„Frumkvöðull er manneskja sem er hugrökk og þorir. Þetta er manneskja sem er með hugmynd sem annað hvort er að breyta einhverju ferli sem er til staðar eða er að koma inn með einhverja tækninýjung sem mun breyta einhverri hegðun. Hugmyndin getur líka snúist um breytingu innan stjórnsýslu eða stjórnsýslukerfis. Frumkvöðull ýtir við breytingum, líka breytingum á hugarfari. Nýsköpun snýst oft um að leysa eitthvað vandamál eða að gera eitthvað sem gengur vel enn betra,“ segir Sesselja og heldur áfram: „Það hafa komið umsóknir frá höfuðborgarsvæðinu og bara landinu öllu. Við hvetjum fólk til að sækja um, eina skilyrðið fyrir því að vera valin inn í Drift EA er að fyrirtækið verði staðsett hér á Norðurlandi. Við finnum fyrir miklum meðbyr sem er ánægjulegt. Það er ósk okkar að starfsemin muni draga fólk að. Og það er einmitt eitt af markmiðum með stofnun Driftar EA að byggja upp vettvang fyrir hugvit og skapandi greinar. Þannig byggjum við upp spennandi samfélag, samfélag sem börnin okkar vilja búa í.“

Frumkvöðull ýtir við breytingum, líka breytingum á hugarfari. Nýsköpun snýst oft um að leysa eitthvað vandamál eða að gera eitthvað sem gengur vel enn betra

Messinn - suðupottur hugmynda

Talið berst að Messanum, sem er einn hluti Driftar EA. Ólíkt Hlunninum þarf fólk ekki að vera frumkvöðull til þess að fá aðgang þangað inn. „Messinn talar meira til þeirra sem eru einyrkjar í starfi án staðsetningar, listafólks en einnig fyrirtækja og fræðanets. Messinn er suðupottur hugmynda og er því kjörinn vettvangur fyrir fólk til að hitta aðra sem eru í einhverjum álíka pælingum, vilja tengjast nýsköpunarsamfélaginu, læra og vaxa, og fyrir fyrirtæki og fræðanetið til að heyra af nýjum tækifærum,“ segir Sesselja. Í Messanum verður boðið upp á deiliskrifborð sem einyrkjar og fólk í fjarvinnu getur nýtt og orðið þar með hluti af ákveðnu samfélagi. Áhersla verður þó lögð á nýsköpun og verður t.d. boðið upp á fræðsluerindi í Messanum og fyrirtæki og skapandi fólk leitt saman í von um samstarf. Segir Sesselja að á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sé mikið af álíka aðstöðu í boði en slíkt hafi alveg vantað á Norðurlandi. „Við erum að búa til vettvang sem mun ýta undir að fólk tengist og fái innblástur hvert af öðru.“

Appelsínuguli hringstiginn liggur á milli þriðju og fjórðu hæðarinnar. Á fjórðu hæðinni er Messinn þar sem fólk getur sótt innblástur hvert í annað og unnið á deiliskrifborðum.

Ekki hörgull á frjóu fólki á Akureyri

Aðspurð hvort hún sé ekkert hrædd við það að öll þessi áform Driftar EA séu of stór fyrir Akureyri þar sem staðreyndin er sú að það sé oft erfitt að fá fólk út úr húsi á viðburði í bænum, svarar hún því neitandi. Akureyri hafi að hennar sögn allt til þess að verða staður nýsköpunar og hugvits. Á svæðinu sé mikið af flottu fólki með góðar hugmyndir, þó ekki hafi kannski farið mikið fyrir því. „Margt af þessu fólki hefur einhvern veginn ekki þorað að stíga fram eða það hefur ekki verið vettvangur fyrir þetta fólk að stíga fram. Þannig að ég held ekki að það sé hörgull á frjóu fólki hér á svæðinu heldur miklu frekar hitt að það hefur vantað vettvang til þess að virkja það,“ segir Sesselja. Þá bendir hún á að samfélagið sé oft allt of letjandi þegar fólk kemur með nýjar hugmyndir og það sé hreinlega talað niður.

  • Ætlar þú að gera þetta? Hvernig ætlarðu að fjármagna þetta?
  • Við búum á Akureyri, það er ekki markaður fyrir þetta hér!
  • Hvað heldurðu að þú sért?

Þetta er setningar sem frumkvöðlar heyra allt of oft að sögn Sesselju. „Eitt af því sem Drift EA langar til þess að leggja mikla áherslu á er hugarfarsbreyting í þessu samfélagi. Við þurfum að ýta undir þá sem þora og fagna þeim. Ef einhver nær árangri í þessu samfélagi og hagnast þá er það allra hagur, við græðum öll á því. Mig langar því til að hvetja fólk til þess að horfa inn á við þegar einhver kemur fram með hugmynd og hugsa hvernig ætla ég að hvetja viðkomandi áfram? Því það verður aldrei neitt til ef við ætlum öll bara að bíða eftir því að einhver komi með eitthvað frábært til okkar. Við erum fullfær um að gera þetta sjálf og saman,“ segir Sesselja að lokum.

Mig langar því til að hvetja fólk til þess að horfa inn á við þegar einhver kemur fram með hugmynd og hugsa hvernig ætla ég að hvetja viðkomandi áfram? Því það verður aldrei neitt til ef við ætlum öll bara að bíða eftir því að einhver komi með eitthvað frábært til okkar. Við erum fullfær um að gera þetta sjálf og saman.