„Við erum að tala um 30% fullan bata!“
![](/static/news/lg/gongudeild.jpg)
„Við erum að tala um 30% fullan bata, í TMS meðferð við alvarlegu þunglyndi,“ segir Gestur Guðrúnarson, annar tveggja í stjórnendateymi Dag- og göngudeildar geðdeildar SAk. Ragnheiður Reykjalín Magnúsdóttir er hinn helmingur teymisins. „TMS er segulörvunartæki á höfuðið, sem kostar 9 milljónir – og við erum byrjuð að safna,“ segir hún í samtali við blaðamann Akureyri.net.
Landsbyggðavinkillinn kemur hér sterkur inn líka, þar sem að tækið hefur verið til í Heilaörvunarmiðstöð í Reykjavík (HÖM), en einungis tveir sjúklingar héðan höfðu notið slíkrar meðferðar síðastliðið vor. Því fylgir mikill kostnaður fyrir þá og Sjúkratryggingar Íslands, enda þurftu þeir að dvelja á sjúkrahóteli í 6 vikur á meðan meðferðin stóð yfir. „Hver meðferð tekur í rauninni bara 5-7 mínútur í senn, en það þarf að gera þetta á hverjum virkum degi í 6 vikur,“ segir Gestur. „Það væri gríðarlegur sparnaður og augljóslega minni fyrirhöfn fyrir fólk að komast í þetta hérna á Akureyri. Þá þyrfti maður bara að droppa við í kaffinu, þess vegna.“
Árný og Brynja, starfsmenn göngudeildarinnar prófa TMS tæki. Myndir: aðsendar
Tækið góða, sem Dag- og göngudeild geðdeildar er að safna sér fyrir. Mynd: Facebook síða SAk
Starfsfólk göngudeildarinnar er drifkrafturinn
„Það er í raun starfsfólkið hérna á deildinni, sem hefur verið drifkrafturinn í því, að við útvegum okkur þetta tæki og tæknina sem fylgir,“ segir Ragnheiður. „Við erum búin að græja aðstöðu og viða að okkur þekkingu. Það er í raun allt tilbúið, okkur vantar bara tækið sjálft.“
Hér á landi hefur algengi þunglyndis farið vaxandi, sérstaklega meðal ungs fólks, og alvarlegt þunglyndi hefur ekki eingöngu áhrif á einstaklinginn sjálfan heldur líka á fjölskyldu og samfélag. Það er því brýn þörf á öflugum meðferðarúrræðum sem geta bætt líðan og lífsgæði. „Tækið örvar einhver svæði í heilanum, varðandi efnaframleiðslu, og eins og ég sagði áðan, þá er bókstaflega 30% fullur bati mældur á þeim sem hafa fengið þessa meðferð. Það eitt og sér ætti að selja fólki þetta umsvifalaust,“ segir Gestur. Lengra viðtal við Gest og Ragnheiði um starfsemina og bætta þjónustu á göngudeildinni er væntanlegt á Akureyri.net, en sá mikilvægi áfangi náðist á dögunum, að biðlistar voru unnir niður. Áður gat verið allt að eins og hálfs árs bið eftir þjónustu.
(TMS) hefur sannað gildi sitt
Segulörvunarmeðferð (TMS) hefur víða um heim sannað gildi sitt sem örugg og áhrifarík meðferð gegn meðferðarþráu þunglyndi. Fjöldi rannsókna sýnir að um 60% sjúklinga sem fá TMS ná verulegum bata, þar af um 30% fullum bata. „Aukaverkanir eru fáar og vara stutt á meðan meðferð er gefin. Árangurinn sem hefur náðst með þessum þremur tækjum sem eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu er alveg á pari við erlendar rannsóknir,“ segir Ragnheiður.
Í tilkynningu á Facebook síðu SAk, þar sem óskað er eftir stuðningi við kaup á tækinu góða, segir: Með kaupum á TMS-tæki getum við boðið upp á þessa gagnlegu meðferð í heimahéraði fyrir Norðurland. Starfsmenn okkar hafa þegar öðlast viðeigandi þekkingu og sérhæfingu með því að sækja námskeið sem styrkt var af Geðverndarfélagi Akureyrar í gegnum The Academy of Brain Stimulation við Maastricht University í Hollandi, auk þess sem góður samstarfsvilji er fyrir hendi við Heilaörvunarmiðstöðina varðandi fræðslu og ráðgjöf.
Fyrir áhugasöm, eru hér upplýsingar til þess að styrkja:
Nánari upplýsingar veitir Brynja Vignisdóttir, bv0917@sak.is
Bankaupplýsingar: Minningasjóður SAk:
Kennitala: 490514-0230 / Reikningsnúmer: 0565-26-654321
Tilvísun á millifærslu „Göngudeild geðdeildar“