Fara í efni
Fréttir

Verðum að varðveita þá hefð að steikja kleinur

Færri og færri kunna að búa til kleinur. Ásta Búadóttir, ferðast um Norðurland og kennir fólki listina að búa til kleinur því henni finnst mikilvægt að kunnáttan glatist ekki.

Kleinugerð er gömul hefð sem virðist vera að deyja út því færri og færri kunna að steikja kleinur. Ásta Búadóttir, kennari og matreiðslumaður, leggur sitt af mörkum til að varðveita hefðina en hún hefur verið að halda námskeið í kleinugerð á Norðurlandi.

Já, því miður er kleinugerð að deyja út en mér finnst að hún megi alls ekki fara úr menningunni okkar, segir Ásta og bætir við að margt fólk eigi góðar minningar um kleinubakstur frá ömmu sinni, þar sem það fékk að snúa upp á kleinurnar en ekki að steikja og kann því ekki að bera sig að. Það er þetta að steikja, fólk er svolítið hrætt við það til að byrja með, það hefur aldrei steikt í feiti þó það kunni alveg að baka.

Margir eiga góðar minningar frá kleinugerð hjá ömmu en kunna þó ekki að steikja kleinur sjálfir. Nú er hægt að læra það á þriðjudaginn á námskeiði á vegum Símey. Mynd: Vísindavefurinn

 

Mikilvægt að halda í menningararfinn

Ásta, sem er 69 ára, starfaði lengi sem heimilisfræðikennari í Árskóla á Sauðárkróki en hluti af námi unglingadeildarinnar var að læra að steikja kleinur. Eftir að Ásta lét af störfum sem grunnskólakennari hefur hún haldið áfram að kenna kleinugerð, nú í gegnum námskeið hjá Farskólanum og Símey en næsta kleinunámskeið hennar verður á Akureyri þriðjudaginn 5. nóvember. Ásta hefur haldið samskonar námskeið á Blönduósi og á Sauðárkróki, sem tókust vel og frá Akureyri er stefnan tekin á Dalvík og Ólafsfjörð.

Aðspurð út í það hvort kleinugerð sé endilega kunnátta sem ætti að vera að bera á milli kynslóða, ef horft er á hollustu hliðina á þeim, fer Ásta að hlægja og segir að margt í menningu okkar Íslendinga sé nú ekki sérlega hollt. Margt af því sem er á borðum á Þorrablótum er t.d. ekki endilega hollt en mér finnst við verða að halda í menningararfinn okkar, það er mín skoðun, segir Ásta. Þá virðast kleinur enn vera vinsælt bakkelsi hjá landsmönnum, enda fást þær í flestum matvöruverslunum og bakaríum landsins, þó fáir kunni að búa þær til heima hjá sér.