Fara í efni
Mannlíf

Jól um hásumar og fólk flykkist á ströndina

Valhildur Jónasdóttir Anderson, sem búsett hefur verið erlendis í hálfan fjórða áratug, býr nú í Bermagui í Nýju Suður-Wales, á suðaustur horni Ástralíu. Hún er dóttir Jónasar Jónssonar frá Brekknakoti, barnakennara, og Borghildar Einarsdóttur, hjúkrunarkonu. Valhildur skrifaði þessa grein að beiðni Akureyri.net – þetta er tíunda og síðasta greinin í flokki sem Akureyringar erlendis skrifa um jólahaldið.

_ _ _ _

Ég flutti til Kaupmannahafnar 1985. Bjó þar þangað til 2012, fyrst með íslenskum manni, seinna dönskum og síðustu sjö árin var ég ein.

Jólin voru í byrjun eins og við þekktum frá Íslandi, blanda af hefðum beggja fjölskyldna. Seinna kryddaðist jólahaldið dönsku ívafi, t.d. með dönskum julefrokost, oft bæði jóladag og annan í jólum en á aðfangadag vorum við oftast heima.

Þegar ég var ein í Danmörku, fannst mér þetta jólahald hálfgerð vitleysa og aflýsti því nánast alveg í nokkur ár. Hafði þó alltaf ljós úti, góða bók við hendina og góðan mat á borðum.

Í byrjun árs 2012 kynntist ég svo núverandi eiginmanni. Hann er Ástrali sem bjó þá í Danmörku en vann á borpalli við strönd Saudi-Arabíu, var til skiptis mánuð þar og mánuð heima. Um mitt ár var honum boðin staða á skrifstofu fyrirtækisins í Saudi og til að gera langa sögu stutta, þá fluttum við til Bahrain í lok árs 2012.

Fyrstu jól í múslimsku landi voru haldin 2013. Mér kom á óvart að heyra Merry Christmas hvar sem við komum. Íbúar Bahrain (og jafnvel Saudi) keyptu mikið af jólaskrauti og ein kona sagði við mig að hún hlakkaði mikið til að skreyta jólatréð og hengja kransinn upp. Arabarnir nota öll tækifæri möguleg til að hafa partý.

Við umgengumst mikið aðra sem voru við vinnu þarna og jólin voru blanda af amerískum og evrópskum siðum. Við buðum til dæmis hópi fólks til okkar í glögg og heimabakaðar smákökur um miðjan desember.

Meðan við bjuggum í Bahrain komum við venjulega saman á aðfangadagskvöld, fjórar til sex fjölskyldur, í hátíðarmat, og krakkarnir fengu að opna einn pakka. Á jóladag tókum við því venjulega rólega en opnuðum pakkana okkar og borðuðum góðan mat.

Eiginmaðurinn hafði verið danskgiftur og vanur að halda aðfangadagskvöld hátíðlegt þar, svo við höfum verið svolítið „bæði og“.

Við fluttum svo til Ástralíu 2017 og þangað til snemma árs í ár hefur hann verið á borpalli við Saudi aftur, mánuð í senn en mánuð heima. Við höfum ekki haldið almennilega saman upp á jólin síðan við fluttum hingað, fyrr en nú, vegna þess að í byrjun árs hætti hann olíunni, bæði vegna mikilli og þreytandi ferðalaga og skógareldanna sem herjuðu hér í byrjun árs, en þá sat hann fastur í Saudi.

Núna fyrir jólin buðum við vinahópnum í jólaglögg og smákökur og það vakti mikla lukku þótt á miðju sumri sé. Á aðfangadag er farið í Christmas drinks hjá vinafólki og svo bjóðum svo kunningja, sem er einn, í mat á jóladag.

Meðan ég bjó í Danmörku og Bahrain fékk ég sent hangikjöt, sem er ein sælasta minning af jólunum heima – hangikjötsilmurinn, þegar það var soðið. Ég hef ekki getað fengið hangikjöt hingað en er að vinna í að reyna að finna einhvern sem getur kaldreykt lambalæri og þá reyni ég að framleiða þetta sjálf.

Fjölskyldan hér er bara eiginmaðurinn, Jim, og ég, hundurinn Oscar og kötturinn Peppa, sem við „björguðum“ báðum í Bahrain og tókum með okkur hingað. Ég á engin börn, en Jim á son með fjölskyldu í Danmörku og dóttur á Nýja-Sjálandi.

Við höfum verið heppin og alveg laus við Covid á þessu svæði og vonumst til að halda því þannig. Engir gestir eru hér frá útlöndum enn sem komið er, því landmærin eru enn lokuð. Ef fólk hér þarf að fara til útlanda, til dæmis vegna sjúkdóms eða dauðsfalls í nánustu fjölskyldu, þarf það að sækja um leyfi og skrifa undir samþykkt þess efnis að það geti ekki komið tilbaka fyrr en að þremur mánuðum liðnum.

Hér eru jólin auðvitað mikið öðruvísi en á Íslandi. Við búum i litlum ferðamannabæ alveg niðri við strönd, hér er hásumar og bærinn fullur af gestum. Fólk flykkist á ströndina á jóladag ef veðrið er gott. 

Eitt sem aldrei hefur breyst er að gera laufabrauð og kleinur í desember. Ég hef ekki getað fengið tólg utan Íslands svo ég nota svínafeiti. Aðventuskreytingar og jólatré er ég alltaf með, var með lifandi tré í Danmörku en gervitré bæði í Bahrain og hér.

Jólahefðir eru eins og sjá má, sitt lítið af hverju, þó hef ég alla tíð skrifað jólakort, venjulega heimatilbúin, til vina og vandamanna. Mér þykir leitt að færri og færri haldi í þann sið, það er svo yndislegt að fá gamaldags póst með jólakveðju.

Jólakveðja og bestu óskir!
Valhildur

Hjónin bjóða vinafólki gjarnan í smákökur og jólaglögg fyrir hátíðarnar og eitt sem Valhildur segist aldrei sleppa er að gera í desember er laufabrauð og kleinur; myndin af þeim kræsingum er ný. Og svo er það garðurinn; sumarlegur og fallegur að vanda um þetta leyti árs!

Bahrain um jólaleytið - og hjónin Jim og Valhildur í sínu fínasta pússi þar.

Jólatré og hinar ýmsu skreytingar eru ekkert öðruvísi hinum megin á hnettinum, þótt veðrið sé annað þar en hér um jólaleytið.

FYRRI GREINAR

Hildur og Hermann í Brüssel

Bjarki og Elín í Boston

Arnór Þór og Jovana Lilja í Haan

Bianca og Stephany í Mexíkó

Lára Magnúsdóttir í Kaliforníu

Svanfríður Birgisdóttir í Örebro

Katrín Frímannsdóttir á sléttunni miklu

Sigurður Guðmundsson í Sambíu

Gunnar Gíslason í Svíþjóð