„Veit að ég mun eignast vini hér fyrir lífstíð“

Blakkonan Julia Bonet Carreras var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar í blaki, þar sem KA-konur tryggðu sér fjórða Íslandsmeistaratitilinn í röð í gærkvöldi. Akureyrarbær hefur haft þann skemmtilega sið að velja Akureyring vikunnar á Facebook-síðu sinni í vetur, og kom það í hlut Juliu þessa vikuna. Með færslunni fylgdi þetta viðtal við Juliu, sem hefur búið á Akureyri síðan 2023:
Fjölskyldan heimsótti mig síðasta sumar og elskuðu landið
Julia spilaði með liði í Las Palmas á Kanaríeyjum tímabilið 2022-2023 þegar hún sleit krossband í nóvember. „Í desember fékk kærastinn minn, Zdravko, tækifæri til að spila á Akureyri og þar sem ég gat jafnað mig á meiðslunum hvar sem er í heiminum ákvað ég að fara með og sjá hvort mér litist á Ísland. Það má því segja að ég hafi komið hingað út af ástinni.“
Hún segist hafa undirbúið sig fyrir myrkrið á Íslandi. „Myrkrið er erfitt en sem betur fer hef ég lítinn tíma til að velta mér upp úr því. Á hinn bóginn elska ég sumrin hér, þegar það er bjart alla nóttina. Á Íslandi hef ég líka komist að því að ég elska að veiða og þegar veðrið er gott erum við dugleg að skella okkur út að veiða – meðfram blakinu. Dvöl okkar hér hefur sína kosti og galla en kostirnir eru sannarlega fleiri.“
Íslandsmeistarar! Mikil og innileg fagnaðarlæti brutust út hjá leikmönnum, þjálfurum og áhorfendum í KA-heimilinu í gær. Mynd: Ármann Hinrik
Saknar fjölskyldunnar en líður vel hjá KA
Hún viðurkennir að það sé vissulega erfitt að vera fjarri fjölskyldunni. „Það er mjög erfitt. Við höfum alltaf hist í hádeginu á sunnudögum og það er mjög langt síðan ég hef mætt – ég sakna þess mest. Það væri líka gaman að geta deilt mikilvægum stundum með foreldrum mínum og systrum, eins og gærdeginum. En ég mun gera sem mest úr tímanum með þeim þegar ég hitti þau í sumar. Fjölskyldan heimsótti mig síðasta sumar og elskuðu landið. Við ferðuðumst um en þau verða að koma aftur því pabba dreymir um að fá að sjá lunda og var því miður ekki svo heppinn.“
Hún segist ánægð hjá KA. „KA er stórt félag en það sem ég kann sérstaklega að meta er að hér þekkja allir alla. Mér líður mjög vel hér, bæði hjá klúbbnum og í liðinu. Fólkið er frábært og alltaf tilbúið til að aðstoða – og það er góð tilfinning þegar maður er nýr og áttavilltur. Ég var mjög hissa yfir þeim góðu móttökum sem við fengum, bæði frá kvenna- og karlaliðinu, en ég starfa líka sem aðstoðaþjálfari karlanna. Ég veit að ég mun eignast vini hér fyrir lífstíð.“