Fara í efni
Fréttir

Vaxandi spurn eftir stálgrindarhúsum

Stálgrindarhúsið sem rís á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli.

Unnið er að því að reisa 800 fermetra vélaskemmu á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli og vonast til þess að verkinu ljúki í nóvembermánuði. Það er  dótturfyrirtæki Slippsins Akureyri, Súlur stálgrindarhús ehf., sem sér um verkið, framkvæmdastjórinn segir vaxandi spurn hérlendis eftir húsum af þessu tagi og næstu verkefni séu þegar komin í hönnunar- og undirbúningsferli.

Fyrirtækið Súlur stálgrindarhús ehf., sem stofnað var á síðasta ári, býður tilbúin, innflutt stálgrindarhús á íslenskum markaði. Slippurinn tók að sér það viðamikla verkefni að reisa stórhýsi Húsasmiðjunnar á Selfossi og í kjölfarið var ákveðið að stofna fyrirtæki um verkefni í byggingariðnaði með sérstakri áherslu á stálgrindarhús, enda mikil þekking á stáli innan samstæðunnar, að sögn forsvarsmanns Súlna.

Kristján H. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Súlna stálgrindahúsa, dótturfélags Slippsins Akureyri.

18 vikna afgreiðslutími frá Kína

Stálgrindarhúsin koma hingað til lands tilbúin til uppsetningar, bæði stálvirkið sjálft, yleiningar, gluggar og hurðir. Húsin eru framleidd í Kína og eru CE vottuð og segir Kristján að reikna megi með um 18 vikna tíma frá því allar arkitektateikningar liggja fyrir þar til húsin eru komin á verkstað á Íslandi, tilbúin til uppsetningar.

„Til að enginn vafi leiki á gæðum þessara húsa þá fengum við óháða alþjóðlega þýska vottunarstofu, TÜV SÜD, til að taka út framleiðslu vélaskemmunar þegar það var í framleiðslu í Kína og sú úttekt staðfesti að húsin eru í hæsta gæðaflokki. Enda sjáum við það í uppsetningarvinnunni núna að það stenst allt upp á punkt og prik,“ segir Kristján en sjálfur er hann menntaður húsasmiður og byggingafræðingur en starfaði áður um nokkurra ára skeið hjá Slippnum Akureyri.

Lausn sem er vel samkeppnisfær

„Við fáum mikið af fyrirspurnum um þessar lausnir okkar víða að úr atvinnulífinu, bæði frá viðskiptavinum til sjávar og sveita,“ segir Kristján en þyngri fjármögnun vegna hárra vaxta segir hann helst birtast í því að undirbúningsferli framkvæmda taki lengri tíma en áður. Markaðurinn sé hins vegar augljóslega fyrir hendi.

Stálgrindarhúsið sem rís á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli.

„Fyrirspurnir hafa komið til okkar að undanförnu um smærri sem stærri hús, allt upp í um 3.500 fermetra að stærð. Við getum boðið allar stærðir stálgrindarhúsa og í reynd eru engin mörk á því. Ég hef sjálfur skoðað verksmiðjuna í Kína og veit að þar er núna verið að framleiða hús sem er 20.000 fermetrar að stærð svo að fyrirtækið hefur vítt framleiðslusvið,“ segir Kristján. Aðspurður segir hann þróun í verði á stáli og flutningum í rétta átt að undanförnu og að það styrki samkeppnisstöðu fyrirtækisins enn frekar.

„Þetta eru hús sem eru mjög vel samkeppnisfær á íslenskum markaði og góður valkostur fyrir fjölbreytta starfsemi,“ segir Kristján.

Stefnt á verklok í Hlíðarfjalli í nóvember

Á næstu dögum verður lokið við uppsetningu stálvirkisins í áhaldahúsinu í Hlíðarfjalli og þá tekur við klæðning yleininga og frágangur. Kristján segist vonast til að veðurguðirnir verði framkvæmdinni hliðhollir í haust og að hægt verði að ljúka við húsið í nóvembermánuði. Upphaflega var ætlunin að reisa húsið haustið 2023 en tafir á öðrum verkþáttum urðu til þess að samkomulag var við verkkaupa um að seinka framkvæmdinni um eitt ár.

„Hönnunarferli hússins seinkaði í fyrra og steypa á sökklum og millilofti hófst ekki fyrr en í byrjun júní í sumar en stálgrindin kom til landsins í júní og yleiningarnar í ágúst. Við hófum síðan vinnu við uppsetningu hússins strax og allar undirstöður voru tilbúnar,“ segir Kristján en auk starfsmanna Súlna stálgrindarhúsa ehf. koma starfsmenn frá Slippnum Akureyri að uppsetningarvinnunni. Kristján segir fyrirtækin þannig geta lagt saman krafta sína í verkefnum þegar á þarf að halda.

„Okkar séráhersla er á stálgrindarhúsin en samt sem áður tökum við fjölbreytt önnur verkefni að okkur á byggingarsviðinu. Dæmi þar um er umsjón með breytingum á húsnæði fyrir frumkvöðlasetrið Drift EA í Landsbankahúsinu við Ráðhústorg sem smiðir á okkar vegum eru að ljúka um þessar mundir. Við erum því nýtt félag á byggingamarkaði og getum boðið okkar þjónustu og hús til viðskiptavina hvar sem er á landinu,“ segir Kristján H. Kristjánsson.