Fara í efni
Pistlar

Varnir akasíutrjáa

TRÉ VIKUNNAR - VIII

Í lífríkinu er eilíf barátta milli afræningja og bráðar. Það er einn af drifkröftum þróunar. Bráðin reynir sífellt að finna upp betri varnarviðbrögð. Hjá dýrum eru þau oftast fólgin í því að dyljast eða komast sem hraðast í burtu frá rándýrinu. Tré eru oftast áberandi í umhverfinu og eiga mun erfiðara með skipulagt undanhald en flest dýr. Þau verða því að grípa til annarra hernaðaraðgerðar í baráttu sinni.

Akasíur (Acacia spp.) hafa tekið upp margs konar varnir gegn afræningjum. Í fyrri pistlum hefur verið fjallað almennt um akasíur og um ýmsar tegundir ættkvíslarinnar. Þær hafa þróað með sér og tekið upp efnavopn, lagvopn og fótgönguliða. Að auki halda þær úti boðliðasveitum og fjarskiptatækni sem telst mikilvægt í öllum stríðum. Þar fyrir utan hafa þær sérstakar sveitir sem sjá um aðföng. Um þetta síðasttalda var fjallað í fyrsta pistli um akasíur. Þar var sagt frá svepprót og gerlum sem hjálpa akasíum að fá það sem þær þurfa til að vaxa og vopnast.

Nú skoðum við hernaðaráætlun akasíutrjáa.

Friðsæl akasía í kvöldhúminu. Mynd fengin héðan.

Efnavopn

Akasíur eiga það sameiginlegt með mörgum öðrum plöntum og trjám að stunda efnavopnaframleiðslu. Það gera þau til að verjast dýrum sem éta lauf þeirra. Efnavopnin gera laufin annaðhvort eitruð eða bragðvond. Framleiðsla efnavopna er orkufrekt ferli. Þess vegna getur verið heppilegt að draga úr framleiðslunni nema þegar sérstök ástæða er til.

Akasíur á sléttum Austur-Afríku eru gríðarlega mikilvægar fyrir vistkerfin þar. Fjölmörg dýr sækja í næringarrík lauf, brum og fræ þeirra á meðan önnur láta sér nægja að dvelja í skugganum. Þetta veldur auðvitað töluverðu álagi á trén. Samt framleiða þær fæstar efnavopn nema stundum. Komi gíraffi eða laufkroppari (sem er fuglategund sem flögrar um í stórum hópum) til að fá sér máltíð af akasíulaufum fer í gang merkilegt ferli. Trén fara að framleiða beiskjuefni sem gera laufblöðin bragðvond. Þessi bragðvondu beiskjuefni eru búin til úr nitursamböndum. Af þeim eiga akasíur nægar birgðir, enda í sambýli við örverur á rótunum sem vinna nitur beint úr andrúmsloftinu eins og lýst var í fyrsta akasíupistlinum okkar. Birgðaflutningarnir eru í góðu lagi.

Páfagaukur étur fræ af akasíutré. Sumir fuglar eru hrifnari af laufunum. Myndin fengin úr Youtubemyndbandi. 

Vegna þessara bragðvondu nitursambanda stoppa afræningjarnir sjaldnast lengi við hvert tré. Of mikið af þessum beiskjuefnum geta beinlínis valdið laufætunum tjóni. Á það jafnt við um fugla, skordýr og spendýr.

Fjarskipti

Hverskyns eiturefni eru ekki einu efnin sem akasíur framleiða í baráttu sinni gegn afræningum. Trén framleiða nefnilega líka sérstök boðefni sem við köllum etýlen. Þessum boðefnum er sleppt út í gegnum loftaugun. Þau gegna hlutverki sendiboða og láta trén í næsta nágrenni vita af hættunni. Aðrar akasíur örvast af þessum efnum og fara einnig að framleiða bragðvondu varnarefnin. Þess vegna dugar hvorki fyrir gíraffa né laufkroppara að fara að næsta tré. Þeir þurfa að fara nægilega langt til þess að boðefni um yfirvofandi árás hafi ekki borist. Þannig sér náttúran um að hvert tré verður ekki fyrir of miklu tjóni. Boðefnin sem trén framleiða berast með golunni milli trjáa og þau fara þá að framleiða beiskjuefni sem verja blöðin fyrir afráni. Enn hafa trén ekki fundið leið til að koma þessum boðefnum á móti vindi. Því er það svo að ef gíraffi fer á móti golunni þarf hann að ganga mun styttra en ef hann ferðast undan vindi til að finna almennileg lauf. Hvernig trén nema og vinna úr þessum boðefnum er ekki alveg ljóst. En þetta virkar.

Gíraffi teygir sig í akasíulauf. Tréð bregst við með varnarefnum og lætur akasíur í nágrenninu vita. Myndin er fengin héðan en hana tók Michaël Theys. 

Á undanförnum árum hefur dýralíf í Afríku átt undir högg að sækja. Eitt af því sem gert hefur verið þeim til hjálpar er að færa gíraffa á svæði þar sem þeir hafa aldrei áður verið. Þar vaxa auðvitað akasíur. Sumar þeirra tegunda hafa þróast án gíraffa og þær eiga nú í vandræðum. Talið er að það sé vegna þess að þær akasíur framleiða hvorki eiturefni né boðefni um frekari eiturefnahernað þegar gíraffarnir éta laufin. Þarna stöndum við frammi fyrir slæmum kostum. Eigum við að fórna trjátegundum til að bjarga stóru dýrunum? Er réttlætanlegt að fórna einni tegund til að bjarga annarri? Samkvæmt Tudge (2005) er þetta ein af mörgum ástæðum þess að minnsta kosti 35 tegundir akasíutrjáa eru taldar í útrýmingarhættu í heiminum.

Misjafnt er hversu langt akasíur ganga í eiturefnahernaði sínum og hvar eitrinu er komið fyrir. Til eru akasíur sem verja fræ sín fyrir afræningjum með eitri og sumar framleiða eitruð laufblöð. Engin framleiðir samt svo eitruð laufblöð að einhverri dýrategund hafi ekki tekist að brjótast fram hjá þeim vörnum og éta þau með glöðu geði.

Smellið hér til að lesa pistilinn í heild.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistill um Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils sama dag og hann kemur á vef félagsins í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00