Vantar betri merkingar og meiri afþreyingu
Nú þegar sumarið er að renna sitt skeið og ferðamönnum fer fækkandi í bænum er við hæfi að líta um öxl og rýna í það hvað bæta má svo hægt sé að taka enn betur á móti sífellt stækkandi hópi ferðamanna. Akureyri.net fékk nokkra álitsgjafa til liðs við sig til að rýna betur í það hvað gera mætti betur. Sjá lista yfir álitsgjafa í lok greinar.
Upplýsingamiðstöð nauðsynleg
Í stuttu máli voru álitsgjafar sammála um mikilvægi góðrar upplýsingamiðstöðvar í bænum og voru þeir mjög ánægðir með að fjármagn hafi verið veitt í það að opna hana á nýjan leik í sumar. Hins vegar þyrfti að tryggja framhaldið.
„Við fundum fyrir álagi á okkar starfsemi þegar upplýsingamiðstöðin lokaði. Auðvitað reynir maður að leiðbeina fólki en það situr á hakanum þegar nóg annað er að gera. Við urðum mjög fegin þegar við gátum aftur farið að vísa á Upplýsingamiðstöðina.“
Víða má bæta merkingar í bænum. Styttan af systrunum fyrir neðan Andapollinn er t.d. ómerkt.
Þá var almenn ánægja með alla nýju veitingastaðina sem opnað hafa í bænum nýlega. Eins fengu Zip-line, Brettaparkið og Skógarböðin mikið hrós og einn álitsgjafinn orðaði það þannig að „standardinn” í Akureyrarbæ hefði hækkað til muna með tilkomu Skógarbaðanna við bæjardyrnar.
„Veitingageirinn hefur fengið mikið búst með tilkomu Majó Eyju, Ketilkaffis og LYST í Lystigarðinum. Það er bara frábært að fá nýtt blóð í veitingabransann og að ungt fólk vilji stofna til reksturs hér í bænum og af svona geggjuðum krafti. “
Þó úrvalið af veitingastöðum hafi aukist sögðu álitsgjafar að almennt vantaði þó meiri afþreyingu í bæinn. Það væri ekki endalaust hægt að vísa fólki í Lystigarðinn og í Innbæinn
„Ég er mjög ánægður með Zipline og Skógarböðin en það vantar meiri afþreyingu á Akureyri, eitthvað annað en heilsdagsferðir í Mývatnssveit, eitthvað sem hægt er að gera innanbæjar. Við erum alltaf að vísa fólki út úr bænum, í Jólahúsið, í Bjórböðin o.s.frv.”
Hvað það er nákvæmlega sem vantar fannst álitsgjöfum erfitt að segja en helst einhvers konar fjölskylduvæna afþreyingu annað en að fara í sund. Þá voru gönguleiðir einnig nefndar, það væri mikið spurt um þær en þær þyrfti að kynna betur.
Skilti sem vísar á pósthús í 130 metra fjarlægð í miðbænum.
Taka niður skilti og setja upp skilti
Þá voru álitsgjafar sammála um að bæta mætti merkingar í bænum svo ferðamenn finndu betur það sem þeir leituðu var að. Bæði mætti merkja ýmislegt betur en einnig taka niður skilti sem vísa fólki hreinlega á ranga staði. Í norðurenda göngugötunnar er t.d. skilti sem vísar á pósthús sem er löngu farið úr miðbænum.
„Það vantar almennt betri merkingar í bænum. Það er svo sem ekkert nýtt, þetta hefur komið fram í könnunum árum saman, fólk finnur einfaldlega ekki það sem það hefur áhuga á. Við gerum of mikið ráð fyrir því að fólk viti allt af því að það er með símann í vasanum. En það er stór hópur ferðamanna sem er ekki þar og er ekki alltaf nettengdur. Og þó fólk sé nettengt þá er samt gott að sjá skilti á leiðinni sem sýna að maður er á leið í rétta átt.“
„Mér finnst merkingar vera tilviljanakenndar í bænum. Sumt hefur verið vel gert en það er eins og merkingar hafi ekki verið kláraðar og vantar að tengja merkingar betur saman. Þá mætti vera meira um upplýsingar um fjarðlægð á skiltum. Það er kostur hvað allt er stutt hér en fólk er samt ekki tilbúið að fara í óvissuferð.”
„Fólk er oft að spyrja um „the old town”. Það mætti kannski marka hann betur, hvar hann byrjar og endar, eða að við sammæltumst um það hvaða orð við ætlum að nota á ensku yfir Innbæinn.”
Annað sem álitsgjafar nefndu var Ráðhústorgið. Þar vantar meira líf og betri lýsingu.
„Það þarf að gera eitthvað til að gera Ráðhústorgið meira aðlaðandi og fá fólk þangað. Það er auðvitað alltaf verið að tala um þetta. Það hlýtur að vera hægt að gera eitthvað án þess það setji bæinn á hausinn? Er ekki hægt að fá einhverja til þess að selja handverk þarna? Fá borð og bekki og fleiri matarvagna? Eitthvað sem laðar að. “
Ekki voru allir sammála um lokun göngugötunnar, eða kannski öllu frekar hversu mikið hún ætti að vera lokuð. Þá var nokkur ánægja með gjaldtöku í miðbænum í stað klukkukerfisins. Hins vegar var bent á að það mætti koma upplýsingum betur á framfæri varðandi hvernig eigi að greiða í bílastæðin og helst setja upp fleiri staði þar sem hægt er að greiða fyrir stæðin á staðnum.
„Mér finnst útlendingarnir nokkuð góðir í að finna út úr þessu, enda vanir gjaldtöku erlendis frá. Það eru frekar Akureyringarnir sem eru að hnýta í þetta kerfi og nenna ekki að læra á þetta.”
Að lokum voru nokkrir sem nefndu strætómálin.
„Mér fannst frábært þegar strætó var merktur á ensku að hann væri ókeypis. En vagnarnir þyrftu að keyra oftar, því það þurfa að vera góðar strætósamgöngur um bæinn fyrir ferðamenn. Þá er náttúrlega ekki hægt að hafa engar almenningssamgöngur út á flugvöll og upp á tjaldstæði.“
_ _ _
Álitsgjafar
- Inga Lilja Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Akureyri Backpackers
- Katrín Káradóttir, eigandi Kistu
- Ásgeir Hreiðarsson, framkvæmdastjóra Hamra
- Hallur Gunnarsson hjá Saga Travel
- Inga Vestmann, eigandi Pedromynda
- Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri á Minjasafninu