Valdimar Grímsson í sóknarhug!
Valdimar Grímsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, var mjög sókndjarfur innan vallar á sínum tíma. Valdimar, sem sinnir nú ýmsum viðskiptum, var enn einu sinni fyrstur fram í hraðri sókn á dögunum og skoraði; félag í hans eigu keypti byggingarrétt á lóðinni Hófsbót 2, eftir að Akureyrarbær bauð lóðina upp. Þar með má segja að Valdimar ríði á vaðið því þetta er fyrsta lóðin þar sem uppbygging getur hafist samkvæmt nýlegu skipulagi miðbæjarins.
Á umræddri lóð eru nú tvö hús auk strætóskýlis og mun Akureyrarbær sjá um að fjarlægja mannvirkin auk annarra lausamuna fyrir 1. október næstkomandi og verður lóðin byggingarhæf frá þeim degi. Lóðin er tæpir 500 m² og heildarbyggingarmagn samkvæmt gildandi deiliskipulagi tæpir 1.500 m².
Valdimar er meðal annars eigandi verslananna Vogue fyrir heimilið. Ein slík er á jarðhæð hússins númer 4 við Hofsbót en Valdimar áformar að færa verslunina á jarðhæð nýja hússins, þar sem hún verður líklega tvöfalt stærri en nú. Húsið verður fjórar hæðir, ráðgert var að bæði skrifstofur og íbúðir yrðu á efri hæðum en félag Valdimars – Boxhus ehf – hefur varpað fram hugmyndum um að íbúðir verði á öllum nema jarðhæð. Skipulagsráð hefur tekið jákvætt í erindið og heimilað að undirbúin verði tillaga að breyttu deiliskipulagi.
- HVER ER MAÐURINN? Valdimar Grímsson lék lengst af handbolta með Val og var fastamaður í landsliðinu árum saman. Mörgum Akureyringum er hann líka í fersku minni því Valdimar lék með KA um tíma; var í liðinu sem vann fyrsta stóra titilinn, bikarmeistaratitilinn vorið 1995. KA mætti þá gömlu félögum Valdimars í Val í úrslitum og vann eftir æsispennandi, tvíframlengdan úrslitaleik í Laugardalshöllinni.