„Vá, þetta er tilefni til að gera skemmtilegt verk“
Á nýarstóleikum Sinfóníuhljómsveit Norðurlands annað kvöld í Hofi kennir margra grasa. Þar verður til dæmis frumflutt verkið Fantasía-Ólafur Liljurós sem Michael Jón Clarke samdi sérstaklega af þessu tilefni.
Michael Jón segir aðdragandann að því að verkið verður frumflutt á tónleikunum vera um tvö ár. „Þetta byrjaði þannig að Daníel Þorsteinsson hafði samband við mig og vildi fá nýtt íslenskt verk inn í þetta prógramm, áramótatónlist, ekki endilega bara vínartónlist, en það var bara ekki mikið til,“ segir tónskáldið í samtali við Akureyri.net. Hann segir Daníel hafa nefnt þá hugmynd að útsetja Ólaf Liljurós og þeir hafi verið með eitthvað einfalt í huga. „En svo fer ég að lesa um þetta og þá er þetta svona epískt kvæði, 19 erindi,“ segir Michael og bendir á að kvæðið fjalli um svo miklu meira en það sem flest okkar þekkja í fyrsta eða fyrstu erindunum. „Þetta er náttúrlega allt annað en bara reið með björgum fram. Hann hittir álfakonu, hann hittir margar álfakonur, ein vill fá að kyssa hann en hann telur sig ekki mega það,“ segir hann sem dæmi um efni kvæðisins.
Þetta er mjög litríkt
„Ég hugsaði bara, vá, þetta er tilefni til að gera skemmtilegt verk. Ég fór af stað og hugsaði þetta fyrir litla hljómsveit, en það var fyrir tveimur árum. Svo kom covid og ég hafði nógan tíma og við fórum út í að vinna þetta fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit. Ég vildi hafa eins mikið skemmtanagildi og hægt væri miðað við morðsögu og svo fór að fléttast inn hjá mér að útsetja lagið með ýmsum hætti, í moll og með villta vestrið í huga og söngvarinn ríðandi á hesti,“ segir Michael og bætir við að þegar kemur að hnífstungu þurfi ekki að útskýra að þá komi brot tengt Hitchcock. „Þetta fór að spinna utan á sig, komnir inn Vínarvalsar og allt mögulegt. Þetta er mjög litríkt,“ segir hann og ástríðan í röddinni gefur fyrirheit um forvitnilegt og skemmtilegt verk, fantasíu um danskvæði sem við þekkjum öll.
Fæst okkar þekkja þó nema örfá erindi kvæðisins um Ólaf Liljurós og Michael notar ekki öll erindin í tónverki sínu. Hann segir að þegar komið var að 14. erindi hafi hann séð að ekki væri mikið að gerast eftir það og því sleppt nokkrum erindum og farið í lokaerindið. Það kæmi eiginlega spennufall í verkið ef hann notaði öll erindin.
Fyrsta verkið fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit
Eins og komið hefur fram er þetta fyrsta verkið sem hann semur fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit. Hann segir það hafa verið mikla vinnu að færa sig yfir á það svið, hann hafi meðal annars þurft að lesa sér til um það áður en hann hófst handa. Að semja fyrir fullmannaða sinfóníuhljómsveit útheimti öðruvísi aðferðir og að huga þurfi að fleiru, eins og hljóðmagni og demprun í tengslum hljómsveitar og söngs og svo framvegis. Að sumu leyti felist breytingin í magni eða fjölda, til dæmis að það séu fjögur horn en ekki tvö, svo dæmi séu tekin. „Þarna er meðal annars harpa og ég hef samið eitthvað fyrir hörpu, en ekki svona sinfónískt. Það koma líka inn alls konar effektar og er mjög flókið, ég þurfti að lesa heila bók um þetta áður en ég byrjaði,“ segir tónskáldið Michael Jón Clarke.
- Meira um tónleikana: Nýárstónleikar SN: 12 verk og fimm „kanónur“
- Kvæðið um Ólaf liljurós