Úr kennslustofunni og löggunni í ávextina
„Borja horfði á mig taka hverja appelsínuna á fætur annarri, skera hana í sundur og henda,“ segir Bessi Víðisson, annar eigenda Fincafresh. Fyrir nokkrum árum var hann að spjalla við vin sinn, Borja López Laguna, sem kemur frá Spáni og þekkir vel hvernig appelsínur eiga að vera. „Hann skildi ekki hvers vegna ég var með appelsínur, vegna þess að það var í fyrsta lagi ekki rétta árstíðin,“ segir Bessi. „Auk þess skildi hann alls ekki, hvers vegna ég sætti mig við að allar appelsínurnar sem ég tæki upp væru skraufþurrar og ekki í standi til þess að borða.“
Á þessum tíma var Bessi að vinna sem lögreglumaður og Borja var að kenna í Dalvíkurskóla. Skemmst er frá því að segja að í dag eru þeir báðir í fullri vinnu við að selja ávexti
Þannig byrjaði ævintýrið hjá tveimur vinum á Dalvík, sem ákváðu að fara að flytja inn ferska ávexti frá Spáni og selja á norðurhjara. „Fyrst átti þetta bara að vera samfélagsverkefni,“ segir Bessi. „Við ætluðum að safna saman fólki hérna á Dalvík, til þess að deila kostnaðinum við að flytja inn eitt bretti af lífrænum ávöxtum og grænmeti sem var í uppskeru hverju sinni, kannski einu sinni eða tvisvar í mánuði.“ Það kom fljótt í ljós að ferlið var mjög flókið og það þurfti að fá ýmis leyfi, þetta var ekki bara spurning um að panta og bíða.
Í árstíð um þessar mundir, og því í kassanum til áskrifenda Fincafresh í apríl, eru bananar, sítrónur, appelsínur og nísperos. Vinirnir voru að pakka í kassa með góðri aðstoð þegar blaðamann bar að garði.
„Við ákváðum þá að stofna fyrirtækið Fincafresh, árið 2021,“ segir Bessi. „Við byrjuðum á að flytja bara inn fyrir okkur og fleiri bæjarbúa, en orðið fór fljótt á flug og við fórum að útvega vöru fyrir bæjarfélögin í kring.“ Á þessum tíma var Bessi að vinna sem lögreglumaður og Borja var að kenna í Dalvíkurskóla. Skemmst er frá því að segja að í dag eru þeir báðir í fullri vinnu við að selja ávexti. „Við ákváðum strax að hafa verðið eins lágt og við mögulega gátum, og höfum það enn að leiðarljósi.“
„Sölumennskan byrjaði frekar brösulega,“ segir Bessi. „Við vissum ekkert hvað þetta gæti orðið stórt, þannig að við leigðum bara posa fyrst og vorum að skutlast um allt.“ Þegar Bessi var búinn að standa í snjóbyl á Siglufirði með ávaxtakassa sem enginn sótti, ákváðu vinirnir að skella sér af krafti í þetta, búa til áskriftarleiðir, láta fólk borga fyrirfram og hafa sendingarfyrirkomulagið í stærri sniðum.
Draumurinn er að búa líka til búð, hafa markað hérna hjá okkur tvisvar í mánuði, þegar við fáum sendingu frá Spáni. Þá gætum við kannski líka verið með grænmeti, lífrænt hveiti og súkkúlaði og allt mögulegt
„Í dag erum við að senda um allt land,“ segir Bessi. „En draumurinn er að búa líka til búð, hafa markað hérna hjá okkur tvisvar í mánuði, þegar við fáum sendingu frá Spáni. Þá gætum við kannski líka verið með grænmeti, lífrænt hveiti og súkkulaði og allt mögulegt.“
Fincafresh er til húsa að Lækjarvöllum, rétt norðan við Akureyri. Best er fyrir áhugasöm að fylgja Fincafresh á Facebook til þess að vera með á nótunum.
Borja fer yfir listann af áskrifendum fyrir næstu sendingu.
Vinátta Bessa og Borja hófst í knattspyrnusamfélaginu á Dalvík, en Borja kom til landsins árið 2019 til þess að spila með meistaraflokksliði Dalvíkur/Reynis. „Ég var í boltanum áður, og hef áhuga á nýjum leikmönnum, þannig að ég fór að kynna mig fyrir þessum nýja leikmanni,“ segir Bessi. „Ég sagði honum bara fyrir rælni, að mig hefði alltaf langað að læra spænsku. Hann sagðist nú vera kennari og gæti bara kennt mér spænsku!“ Þarna var upphafið af vináttunni lagt, en ásamt öðrum spænskum leikmanni, hófst umfangsmikil tungumálakennsla í heita pottinum í Dalvíkurlaug.
„Fyrst töluðum við ensku í tuttugu mínútur,“ segir Bessi. „Þá langaði að skerpa á enskunni sinni. Síðan var íslenska töluð í tuttugu mínútur og svo spænska í tuttugu mínútur. Það hjálpaði reyndar Borja líka, að vinna í skólanum, en íslenskan hans er frábær í dag og ég tala mjög góða spænsku þó ég segi sjálfur frá.“
Það var lykilatriði, fyrir Bessa og Borja, að finna réttan stað til þess að versla ávextina frá Spáni. „Við vildum finna bónda,“ segir Bessi. „Ekki einhverja iðnaðarræktun. Við vildum ekta ávexti, lífræna framleiðslu á minni skala. Við fundum að lokum einn í Andalucia á Suður-Spáni, sem þótti það í meira lagi skrítið að fá viðskiptavini alla leið frá Íslandi!“ Það var mjög flókið að finna sendingarleiðir frá bóndanum góða, alla leið á Norðurland eystra. Það var félögunum mikilvægt að fá ávextina senda á sem allra stystum tíma, þannig að þeir voru óþreytandi við að leita að bestu leiðinni.
Það líður því svona 9-12 daga tími, frá því að bóndinn pakkar ferskum ávöxtum, þangað til fólk fær þá í hendurnar.
„Við fundum á endanum lítið spænskt fyrirtæki, sem sendir ávextina til Rotterdam og þaðan með Samskip til Íslands,“ segir Bessi. „Það tekur yfirleitt tvo daga að koma vörunni til Hollands og svo fjóra daga yfir hafið til Íslands. Svo tekur tvo daga að koma ávöxtunum norður til okkar og svo sendum við til viðskiptavinanna. Það líður því svona 9-12 daga tími, frá því að bóndinn sendir ávextina frá sér, þangað til fólk fær þá í hendurnar. Stundum eru ávextir allt að átta vikna gamlir í lágvöruverslunum á Íslandi, til samanburðar.“
Það sem einkennir Fincafresh, er ekki bara að vera í góðum tengslum beint við bóndann á akrinum, heldur líka að ávextirnir eru alltaf mismunandi eftir því sem er í uppskeru hverju sinni í Evrópu. „Við viljum ekki kaupa eitthvað sem er ræktað í Suður-Ameríku, og þarf að ferðast um margfalt lengri vegalengd.“ Á heimasíðu Fincafresh getur fólk skráð sig í ávaxtaáskrift og fá þá sendan kassa hálfsmánaðarlega, með ávöxtum frá bóndanum góða í Andalúsíu.
„Lífrænir ávextir eru ekki skærir á litinn og sléttir. Þeir eru allskonar. Beint af trénu,“ segir Bessi.
„Það eru áskrifendurnir sem eru hjartað í fyrirtækinu,“ segir Bessi. „Ef fólkið heima hefði ekki verið svona rosalega peppað og til í að skuldbinda sig í áskrift til að byrja með, hefðum við ekki farið langt.“ Bessi tekur fram að ávaxtasala sé ekki álitleg féþúfa, en þeir félagar hafa reynt að halda verðinu á ávaxtakössunum í lágmarki. „Við erum ekki að stórgræða á þessu, alls ekki,“ segir Bessi hlæjandi. „Það er alls kyns leyfiskostnaður líka og skriffinskan í kring um þetta er mjög flókin,“ bendir hann á. „Við fáum samt góðar appelsínur!“
Nú þarf Bessi aldrei að borða aftur vonda appelsínu.