Úr Akureyrarkirkju upp á sjúkrahús!
Séra Svavar Alfreð Jónsson, sem verið hefur sóknarprestur í Akureyrarkirkju í 23 ár, lætur af því starfi um áramót. Hann færir sig þá um set og hefur störf sem prestur á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk).
„Það er gott að breyta aðeins um takt og verður gott að hafa meiri og öðruvísi tíma til að sinna sjálfum sér og ýmsum hugðarefnum. Starfið á sjúkrahúsinu getur líka verið mjög erilsamt en það er annar taktur í því en hér í kirkjunni,“ segir séra Svavar Alfreð við Akureyri.net.
Svavar er 62 ára. „Ég er samt ekki kominn að fótum fram, þótt ég sé að fara upp á spítala!“ segir hann og hlær. Svavar hefur starfað sem prestur síðan 1986 þegar hann varð sóknarprestur í Ólafsfjarðarprestakalli. Hann hefur verið sóknarprestur í Akureyrarkirkju síðan 1995.
Nánar verður rætt við séra Svavar á Akureyri.net seinna í dag.