Fara í efni
Menning

UPPINN: Ný og fersk tónleikaröð á Akureyri

Daníel Andri, einn af forsprökkum nýrrar tónleikaraðar fyrir grasrót tónlistarsenunnar, Uppans. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Mig langaði að skapa vettvang fyrir grasrót akureyrsku tónlistarsenunnar,“ segir Daníel Andri Eggertsson, tónlistarmaður og einn forsprakka nýrrar tónleikaraðar sem hefur göngu sína 7. mars. „Á Bretlandi og fleiri stöðum er þetta kallað showcase. Tónlistarfólk mætir bara á staðinn, spilar sitt efni og fær tækifæri til þess að mynda tengsl við aðra og stækka netið. Ná til nýrra aðdáenda.“ Auk þess að skipuleggja tónleikaröð, spilar Daníel í Færibandinu, kennir á gítar í Tónræktinni og tekur að sér fjölbreytt verkefni á sviði tónlistar. „Það var hamlandi fyrir mig sjálfan, þegar ég var að fara af stað, að græja gigg. Hvernig maður gerir það eiginlega?“

Viðbrögðin voru rosaleg, við erum komnir með sjötíu listamenn sem vilja koma

Daníel gekk með þessa hugmynd í ákveðinni meðgöngu, og svo þegar hann hafði samband við Birgi Örn Steinarsson, betur þekktan sem Biggi Maus, fór boltinn að rúlla. „Hann kom með þá hugmynd að fá kannski einhverja að sunnan með okkur,“ segir Daníel, en þeir gerðu auglýsingu á Facebook, sem var sett inn á opna hópinn 'Nýleg íslensk tónlist', sem er vettvangur til þess að kynna nýja tónlist. Rúmlega 5.000 manns eru í hópnum og það er óhætt að segja að pósturinn hafi fengið athygli. 

 

Daníel Andri spilar sjálfur með Færibandinu, en hér eru þeir búnir að spila á sviði með Birgittu Haukdal. Mynd: aðsend 

Tónlistarfólk úr öllum áttum vill vera með í partíinu

„Viðbrögðin voru rosaleg, við erum komnir með sjötíu listamenn sem vilja koma,“ segir Daníel Andri. „Það er að mestu leyti fólk sem er fyrir sunnan, en svo höfum við farið að þreifa fyrir okkur hérna heima líka og nú er talan komin yfir hundrað. Þannig að það er flottur grunnur til þess að geta farið af stað með tónleikaröð. Við erum klárlega að mæta einhverri þörf, en ég hef pælt í því lengi að geta skapað einhverja senu fyrir tónlistarfólk sem er að reyna að koma sér á framfæri.“ Daníel segir að það sé mikil breidd í þessum hópi sem hefur haft samband og vill taka þátt í tónleikaröðinni. „Þetta er fólk sem er að stíga sín fyrstu skref, vel þekkt nöfn og allt þar á milli. Fólk vill bara fá að vera með í partíinu.“

Það er enginn punktur fyrir aftan þessa setningu. Miðað við fjöldann sem vill vera með núna, þá getum við haldið áfram bara endalaust

Tónleikarnir verða aðra hverja viku, á efri hæð Vamos, sem kallast Vamos Grande. „Á hverjum tónleikum verða tveir eða þrír listamenn eða hljómsveitir,“ segir Daníel. „Við byrjum í mars, nánar tiltekið 7. mars, þannig að undirbúningsvinna er í fullum gangi núna.“ Daníel segir að hann og Biggi sjái þetta líka sem ákveðna brú á milli Reykjavíkur og fleiri staða, við Akureyri. „Þetta gæti verið frábært tækifæri fyrir þau sem eru að grúska í tónlist að hittast og stækka tengslanetið. Mörg af þessum atriðum, sem munu koma fram, væru kannski ekki að fara að fylla Græna hattinn, en við viljum einmitt brúa það bil.“

 

Pósturinn á Facebook, sem sprakk upp. Hér má sjá hvernig fyrirkomulagið verður. Mynd: skjáskot

Skýrar línur varðandi uppsetningu tónleikanna

Samningurinn, sem listafólkið gengur að, er að tónleikahaldarar útvega hljóðkerfi og það verður reyndur hljóðmaður á staðnum. „Við útvegum fría gistingu og greiðum bensínkostnað fyrir einn bíl fyrir þau sem búa annars staðar,“ segir Daníel. „Það verður frítt inn fyrir gesti, en það verður stungið upp á frjálsum framlögum eða að gestir borgi sérstökum listamönnum ef þeim líkar það sem þau heyra, en það er náttúrulega alltaf valfrjálst. Svo er listamönnunum frjálst að selja varning eða plötur.“

Erfiða spurningin, þegar kemur að svona hugmyndum, er alltaf varðandi praktíska hlutann. Hvernig ætla strákarnir að fjármagna verkefnið?

„Dóri á Vamos [Halldór Kristinn Harðarson] er ómissandi partur af þessu. Hann er með stórt tengslanet og er duglegur að sækja styrki, græja og gera, og að láta hlutina gerast,“ segir Daníel. „Ég er að læra mikið af honum. Hann er svolítið að leiða mig áfram og kenna mér mikið af því sem kemur að viðburðarstjórn, sækja styrki, kynna verkefni, víla og díla o.s.frv. Ég, Dóri og Biggi erum eins konar þríeyki í þessu verkefni. Við erum ólíkir á ýmsum sviðum en brennum allir fyrir tónlist og menningu.“

 

Daníel segir að það hafi verið erfitt fyrir sig að 'græja gigg' þegar hann var að stíga sín fyrstu skref sem tónlistarmaður. Myndin til vinstri er af honum, Króla, Hjalta Rúnari og Vilhjálmi B. Bragasyni, þegar þeir héldu aðventuviðburð á LYST, en oft þarf að vera hugmyndaríkur þegar kemur að því að koma fram. Myndir: aðsendar

Nafnið fundið í skemmtistaðasögu bæjarins

„Við fjármögnum það sem þarf með styrkjum frá fyrirtækjum,“ segir Daníel Andri, og minnist á það að ef það séu fyrirtæki þarna úti sem líst vel á verkefnið, má endilega hafa samband. „Við ákváðum að nefna verkefnið 'UPPINN'. Uppinn var gamall skemmtistaður á Akureyri og hefur því sterka tengingu hér heima. Nafnið gefur líka vísbendingu um það sem við viljum gera; að rífa upp senuna á Akureyri og fá til okkar upprennandi tónlistarfólk. Öllum er þó frjálst að sækja um að spila og vera með, það þarf ekkert að vera blautur á bak við eyrun.“

Þetta er vonandi bara byrjunin á einhverju frábæru partíi

„Það sem er svo fallegt við hugmyndir, er að þær eru lifandi og geta verið eins stórar og þú vilt og breyst. Þetta er vonandi bara byrjunin á einhverju frábæru partíi.“ Daníel segir að það sé planið að halda tónleika annan hvern föstudag þangað til annað kemur í ljós. „Það er enginn punktur fyrir aftan þessa setningu. Miðað við fjöldann sem vill vera með núna, þá getum við haldið áfram bara endalaust. Okkur langar að koma öllum fyrir þó það sé ekki hægt í byrjun.“ 

 

Á Tímarit.is fannst þessi perla, ljósmynd Kristjáns Logasonar frá Uppanum, sem var staðsettur í sama húsi og Vamos er í dag. Mynd: Skjáskot af Vikunni frá 1991.

Eldskírn í viðburðarstjórnun

„Ég hef mikinn áhuga á viðburðarstjórnun, en ég ítreka að ég er að læra þetta,“ segir Daníel Andri. „Mig langar að fara meira út í þetta, þó mér finnist líka gaman að spila sjálfur og standa á sviði, þá gefur það mér mjög mikið að vera á bak við tjöldin og skapa umgjörð fyrir aðra. Dóri á Vamos er mjög reyndur í að halda viðburði og hann leiðir mig svolítið áfram í þessu. Stundum þarf bara að hoppa út í djúpu laugina og læra að synda.“ 

Tónlistaráhugafólk er hvatt til þess að taka kvöldið 7. mars frá, en þá verða fyrstu tónleikarnir á dagskrá. „Við erum búnir að velja atriði á fyrsta kvöldið og ég lofa því að það verður geggjað,“ segir Daníel Andri að lokum.