Upphaf alþjóðlegs átaks gegn kynbundnu ofbeldi
Árleg ljósaganga fór fram í dag á Akureyri, við upphaf 16 daga alþjóðlegs átaks gegn kynbundnu ofbeldi með vitundarvakningu sem UN WOMEN stendur fyrir. Þrír klúbbar, Zontaklúbbarnir Þórunn hyrna og Zontaklúbbur Akureyrar, ásamt Soroptimistaklúbbi Akureyrar, stóðu fyrir göngunni í dag til að vekja athygli á málefninu og lýsa yfir andstöðu gegn ofbeldi á stúlkum og konum, sem og öllu öðru ofbeldi.
Gengið var frá Zontahúsinu, Aðalstræti 54, meðfram Leirutjörninni og út að Bjarmahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, í Aðalstræti 14. Þar flutti ávarp séra Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur í Akureyrarkirkju.
Séra Hildur Eir Bolladóttir hélt ávarp við lok göngunnar, við Bjarmahlíð miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, í Aðalstræti 14.
Í kynningu á viðburðinum kom fram að þetta 16 daga átak eigi rætur aftur til ársins 1991 og að tímabil átaksins tengi á táknrænan hátt saman dagana 25. nóvember, sem er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum, og 10. desember, sem er alþjóðlegi mannréttindadagurinn. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls ofbeldis.