Ungur raftónlistarmaður með útgáfutónleika í Hofi

Útgáfutónleikar unga raftónlistarmannsins Spacement, sem er listamannsnafn Agnars Forberg, verða haldnir í Hofi í kvöld, föstudaginn 28. febrúar. Tónleikarnir verða í Black box, og hefjast kl. 20.00. „Kærleikur & Kvíði er fyrsta fullorðinsplatan mín,“ segir Agnar við blaðamann Akureyri.net. „Ég er búinn að vera í fjögur ár að búa hana til, en á þeim tíma hef ég farið frá því að vera unglingur yfir í fullorðinn einstakling og platan fjallar mikið um það ferli.“
„Ég hef alltaf verið í kringum tónlist, foreldrar mínir eru bæði tónlistarfólk,“ segir Agnar, en foreldrar hans, Ásdís Arnardóttir og Ludvig Kári Forberg starfa bæði sem tónlistarfólk og kennarar á Akureyri. „Ég byrjaði að semja þegar ég var 13 ára. Tónlistin mín er raftónlist með blandi af rap/trap tónlist þó ég farið út fyrir öll boxin. Tónleikarnir verða ekki líkir neinu sem hefur áður verið í Hofi. Með mér á sviðinu verða tónlistamennirnir Leo Xin og Jóel Örn.“
Kærleikur og kvíði er önnur plata listamannsins Spacement. Lögin eru fjölbreytileg með alls konar þemu, allt frá fuglasöng til ástarsorgar og alls konar þar á milli. Viðburðurinn er styrktur af VERÐANDI listsjóð sem er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Menningarfélagsins Hofs og Menningarfélags Akureyrar.