Fara í efni
Fréttir

Unglingum Glerárskóla kennt í Rósenborg

Kennarar á unglingastigi standa í flutningum í vikunni; Tómas Lárus Vilbergsson deildarstjóri hér á ferð.

Nemendur í 8. til 10. bekk Glerárskóla sinna námi sínu að megninu til í Rósenborg – gamla Barnaskóla Akureyrar – næstu tvo vetur. Þetta kemur fram á vef skólans.

Breytingin var ákveðin með tiltölulega stuttum fyrirvara, og tilkynnt í vikunni, þar sem tilboði í framkvæmdir við A-álmu Glerárskóla var nýlega tekið og hafist verður handa sem fyrst. Hún verður endurbyggð á næstu tveimur árum.

„Þar sem tíminn er knappur náum við ekki að hefja skóla hjá nemendum í 8. -10. bekk fyrr en miðvikudaginn 24. ágúst en skólasetning verður samt á sínum stað hjá nemendum 2. – 10. bekkjar mánudaginn 22. ágúst 2022 ...“ segir á heimasíðu skólans.