Fara í efni
Fréttir

Umferðaröryggisáætlun: EFLA bauð 5,9 milljónir

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Vinna við gerð umferðaröryggisáætlunar virðist loks vera að komast af stað. Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrar hefur ákveðið að ganga til samninga við EFLU ehf. um gerð umferðaröryggisáætlunar að undangenginni verðfyrirspurn. EFLA ehf. bauð lægsta verðið, 5.952.000 krónur. 

Gerð umferðaröryggisáætlunar á sér langan aðdraganda. Í nóvember 2009 var birt frétt á vef Akureyrarbæjar þar sem því var lýst að þáverandi bæjarstjóri, Hermann Jón Tómasson, hafi undirritað samning Akureyrarbæjar og Umferðarstofu þar sem Akureyrarbær skuldbindur sig til að gera sérstaka umferðaröryggisáætlun. Markmiðið með henni sé að auka öryggi allra vegfarenda og fækka óhöppum og slysum í umferðinni. 

„Sérstök áhersla er lögð á öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Umhverfi skóla, leikskóla, félagsmiðstöðva og íþróttamannvirkja verður metið sérstaklega. Upplýsingar um tjóna- og slysatíðni og slysakort verða notuð til að auðvelda tæknilegar aðgerðir til að ná tilætluðum árangri,“ segir meðal annars í þessari 15 ára gömlu frétt. Þá voru tilnefndir þeir Unnsteinn Jónsson frá skipulagsnefnd og Jón Erlendsson frá framkvæmdaráði, ásamt Helga Má Pálssyni frá framkvæmdadeild og Pétri Bolla Jóhannessyni frá skipulagsdeild til að vinna að framgangi áætlunarinnar í samráði við fulltrúa Umferðarstofu. 

Gleymdist eða gleymdist ekki?

Aðalsteinn Svan Hjelm, íbúi í Oddeyrargötu sem hefur látið sig umferðaröryggi mjög varða, fullyrti í viðtali við Akureyri.net í febrúar að eftir fjölmiðlafund með Hermanni Jóni, þáverandi bæjarstjóra, í nóvember 2009 þar sem áform um gerð umferðaröryggisáætlunar voru kynnt hafi hún hreinlega gleymst. Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi (S) gagnrýndi seinagang við gerð áætlunarinnar í bókun á fundi umhverfis- og mannvirkjaráðs í júní. 

Í framhaldi af viðtalinu við Aðalstein Svan og umfjöllun um umferðaröryggi í Oddeyrargötu og skort á umferðaröryggisáætlun andmælti Andri Teitsson, þáverandi formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs, því að umferðaröryggisáætlunin hafi gleymst og sagði að ýmislegt hafi verið gert þó ekki hafi orðið til heildstæð áætlun. „Hún hefur aldrei gleymst og það hefur verið lögð talsverð vinna í ýmsa þætti hennar, svo sem að skoða og laga göngu- og hjólaleiðir barna til og frá skóla. Einnig hefur verið lögð vinna í að kortleggja umferðarhraða í bænum, umferðargreinirinn hefur verið nær samfellt í gangi frá 2008. Umhverfis- og mannvirkjaráð hefur fjallað um mikilvægi þess að ljúka við heildstæða umferðaröryggisáætlun og sérfræðingar okkar hafa verið í sambandi við verkfræðistofu um mögulegt umfang á þeirri vinnu. Skipulagsráð þarf einnig að taka virkan þátt enda liggur þar valdið til að ákvarða umferðarhraða, einstefnur og svo framvegis,“ sagði Andri í umfjöllun á Akureyri.net í febrúar.

Hvað sem öðru líður er nú að komast skriður á vinnu við umferðaröryggisáætlunina og fram undan vinna við að semja við lægstbjóðanda í verðfyrirspurn umhverfis- og mannvirkjaráðs, EFLU ehf., um ferð áætlunarinnar.