Troðfullt á tónleikum VÆB og Skandals

Fullt var í stærsta salnum í Hofi, Hamraborg á Sumartónum, tónleikum ungmennaráðs Akureyrarbæjar á Barnamenningarhátíð í gær. Fjölmargir voru fyrir utan salinn líka og horfðu á tónleikana á stórum skjá þar, en salurinn fylltist fljótt og komust færri að en vildu. Það voru bræðurnir í VÆB og norðlenska hljómsveitin Skandall sem trekktu svona gríðarlega að. Margir krakkar mættu í silfurlituðum búningum og með demantagleraugu, eins og VÆB bræður hafa verið frægir fyrir að skarta.
Sumartónar eru árlegir tónleikar, sem fylgja Barnamenningarhátíð Akureyrarbæjar, en það er ungmennaráð sem sér um að velja flytjanda hverju sinni. VÆB bræður hafa slegið í gegn hjá landanum eftir að vinna Söngvakeppni sjónvarpsins í ár og það þurfti eflaust ekki mikið að ræða það fram og aftur, hverjum ætti að bjóða á Sumartóna í ár.
Hér fylgja nokkrar myndir úr Hofi.
Kynnarnir Rebekka og París Anna, ásamt VÆB bræðrum og hljómsveitinni Skandal. Mynd: Þorgeir Baldursson
Það vantaði ekki orkuna í bræðurna, en eins og segir í laginu - þá verða þeir ekki stoppaðir af. Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Unga fólkið var með klæðnaðinn á hreinu. Mynd: Rakel Hinriksdóttir
VÆB bræður, þeir Matthías Davíð og Hálfdán Helgi Matthíassynir, baksviðs í Hofi. Mynd: Þorgeir Baldusson
Þessi flotti gaur var með allt dressið á kristaltæru! Mynd: Þorgeir Baldursson