Trillað í kirkjugarðinn á sjúkrabörunum
Stundum er sagt að ekki séu allar hetjur með skikkju. Vissulega er það rétt, hversdagshetjurnar sem leggja krók á leið sína fyrir annað fólk í amstri dagsins eru sjaldnast skikkjuklæddar. Í tilfelli Önnu Björnsdóttur voru þær nú samt einkennisklæddar, en óvenjuleg heimsókn hennar í kirkjugarðinn í fylgd tveggja góðhjartaðra sjúkraflutningamanna rennur henni seint úr minni.
Það var svolítið sérstakur dagur; 24. júní, afmælisdagur eiginmanns Önnu, Stefáns Þorsteinssonar, sem lést fyrir þremur árum eftir baráttu við krabbamein
„Ég var búin að vera á Borgarspítalanum, að jafna mig eftir aðgerð á fæti,“ segir Anna Björnsdóttir, en hún er fyrrverandi starfsmaður á hjúkrunarheimilum og núverandi eldri borgari. „Ég fór heim með innanlandsflugi og átti svo að fara beint á sjúkrahúsið hérna á Akureyri. Ég kom úr flugvélinni í hjólastól og þá tóku á móti mér tveir sjúkraflutningamenn með börur. Ég mátti ekkert stíga niður eftir aðgerðina.“
„Keyrum við ekki framhjá kirkjugarðinum?“
Anna segist aldrei hafa séð þessa menn áður, og náði ekki nöfnum þeirra, enda mikið gengið á og hana var farið að lengja eftir því að komast heim. Það var svolítið sérstakur dagur; 24. júní, afmælisdagur eiginmanns Önnu, Stefáns Þorsteinssonar, sem lést fyrir þremur árum eftir baráttu við krabbamein. „Ég spyr þá svona í hendingu, þegar við erum komin af stað, hvort að við munum ekki keyra framhjá kirkjugarðinum,“ segir Anna. „Jújú, þeir héldu það nú. Ég sagði þeim þá að maðurinn minn hefði átt afmæli í dag. En það sæist nú ekkert út úr bílnum hvort sem er, þannig að það yrði bara að hafa það að missa af því að heimsækja hann á þessum afmælisdegi.“
„Þetta er nú ekkert mál, sagði þá annar af þessum góðu mönnum,“ segir Anna. „Við förum bara þangað!“
Í fyrstu hélt Anna að henni væri ætlað að sjá út um afturrúðurnar þegar sjúkrabílnum var bakkað að suðurhliði kirkjugarðsins, en þá tóku mennirnir til við að koma henni út úr bílnum á börunum og áður en hún vissi af var henni keyrt áleiðis inn í garðinn. „Þeir keyrðu mig alveg að leiðinu og mynduðu mig þar. Mér finnst þeir alveg frábærir.“ Anna segir að enginn annar hafi verið í garðinum, sem betur fer. „Nema svo kom þarna ein kona, og ég fór að segja að þeir yrðu að fara með mig aftur í bílinn, konan gæti haldið að þeir væru að mæla mig þarna! Hvað það þyrfti nú að grafa stóra holu!“ Anna hlær þegar hún reynir að ímynda sér hvernig þetta atriði hafi litið út.
Stefán Þorsteinsson sjómaður, eiginmaður Önnu sem lést fyrir þremur árum. Mynd úr einkasafni Önnu.
Sjúkraflutningamennirnir tóku myndir af Önnu við leiðið, þar sem hún fékk að kasta afmæliskveðju á Stefán sinn. „Hann hefði orðið áttatíu og þriggja þennan dag. Mig langar svo mikið til þess að hæla þessum góðu mönnum, ég er svo þakklát og ég ligg ekkert á þessari sögu við neinn!“
Eftir símtal til Slökkviliðs Akureyrar komst blaðamaður að því að þessir góðhjörtuðu sjúkraflutningamenn heita Guðmundur Smári Gunnarsson og Skúli Lórenz Tryggvason, en þeir gáfu góðfúslegt leyfi fyrir nafnbirtingu.
Anna segist líka hafa fengið að kynnast dásamlegum sjúkraflutningamönnum fyrir sunnan, en í sjúkrabílnum frá Borgarspítalanum var mikið hlegið. „Sá sem sat hérna aftur í með mér lék á als oddi og honum fannst svo gaman,“ rifjar Anna upp. „Hann hló alla leiðina, spjallaði og fyrr en varir var hann búinn að bjóða mér í brúðkaupið sitt og ætlaði nú bara að sækja mig á sjúkrabílnum sagði hann. Ótrúlega hress og skemmtilegur.“
Anna var hress þegar hún tók á móti blaðamanni til þess að segja söguna af heimsókninni í kirkjugarðinn. Mynd: Rakel Hinriksdóttir