Tónlistarnemendur og leikskólabörn mætast

Una Björg Hjartardóttir, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri.
„Tónlistarskólinn á Akureyri er heimahöfn verkefnisins á Norðurlandi og erum við fyrst til að halda tónleika í ár,“ segir Una Björg. „Tónleikarnir eru opnunaratriði Barnamenningarhátíðar 2025. Þar er fremst í stafni eldhuginn Elfa Lilja Gísladóttir en þetta verkefni er hennar hugarfóstur og ástríða. Á hverju ári halda tónlistar- og leikskólanemar tónleika í Hörpu þar sem einhver lagahöfundur eða lagahöfundar eru í forgrunni.“
Blaðamaður leit við á æfingu, en það er mikil fræðsla fólgin í verkefninu. Hér kynnir Ásdís Arnardóttir, sellóleikari og kennari við Tónlistarskólann, kontrabassann og hljóm hans fyrir börnunum. Mynd: RH.
Samvinna tónlistarnemenda og leikskólabarna
„Í ár er ljóðskáldið og lagahöfundurinn Bragi Valdimar Skúlason í forgrunni og munum við flytja 4 lög eftir hann á tónleikunum sem bera yfirskriftin Leikur að orðum,“ segir Una Björg. „Leikskólarnir sem taka þátt eru Álfaborg á Svalbarðseyri, Álfasteinn í Hörgársveit og frá Akureyri leikskólarnir Hólmasól, Hulduheimar, Kiðagil, Klappir, Krógaból, Lundarsel-Pálmholt, Naustatjörn og Tröllaborgir. Söngstjóri er Margrét Árnadóttir. Undirleik annast hljómsveit skipuð nemendum frá Tónlistarskólanum á Akureyri og hljómsveitarstjóri er Ásdís Arnardóttir. Sérstakir gestir eru nemendur í A-blásarasveit tónlistarskólans undir stjórn Sóleyjar Bjarkar Einarsdóttur en þau munu leika eitt lag á tónleikunum.“Tvennir tónleikar verða í Hofi í dag, 1. apríl
Söngstjóri er Margrét Árnadóttir, en Ásdís Arnardóttir stjórnar hljóðfæraleikurunum. Mynd: RH