Fara í efni
Menning

Tónlistarflóð í Hofi

Ein af hljómsveitunum sem kom fram á tónleikum rytmísku og skapandi deildanna mánudaginn 2. maí. Ljósmynd: Sverrir Páll

Um víða veröld undrast fólk hversu óteljandi margir frábærir og frambærilegir söngvarar og hljóðfæraleikarar komi frá ekki stærra landi en Íslandi. Þegar leitað er svara við orsökum þess er einlægast að vísa til tónlistarmenntunar á landinu. Mikill fjöldi íslenskra barna og ungmenna stundar tónlistarnám, það ljúka því kannski ekki allir, ef einhvern tíma er hægt að vera búinn að læra tónlist, en ef farið er yfir þá sem framarlega standa í tónlistarheiminum hér á landi er sjaldgæft að hitta á einhvern sem ekki hefur lært eitthvað í tónlistarskóla – eða nælt sér í kennslu á Youtube eða einhverri slíkri veitu. Það er líka nám. Í klassíska geiranum er nauðsynlegra en annars staðar að hafa góða hefðbundna langvarandi menntun, en í heimi annarra tónlistarstefna, í poppi, rokki og djassi, verða sífellt til fleiri tónlistarmenn og -konur sem eiga að baki langt háskólanám og jafnvel doktorsgráður í tónlist af ýmsu tagi. En þrátt fyrir allt virðist eitthvað vera í loftinu eða umhverfinu sem gerir það að verkum að hér á landi verða til fleiri stjörnur en til dæmis í þrjúhundruð og fimmtíu þúsund manna kaupstað í útlandinu.

Vorið er uppskerutími tónlistarskólanna, starfstími þeirra er á pari við grunn- og framhaldsskóla, enda meirihluti tónlistarnema jafnframt í venjulegu skólanámi. Hér á Eyjafjarðarsvæðinu eru nokkrir tónlistarskólar, að minnsta kosti þrír á Akureyri auk Tónlistarskóla Eyjafjarðar og Tónlistarskólans á Tröllaskaga. Tónlistarskólinn á Akureyri er stærstur, en að sögn Unu Bjargar Hjartardóttir aðstoðarskólastjóra eru nemendur um 350 á aldrinum 4 til 67 ára, langflestir eru jafnframt nemendur í grunn- og framhaldsskólum.

Maí er mikill uppskerutími skólans og þegar að er gáð kemur í ljós að í þessum uppskerumánuði eru ekki færri en sautján nemendatónleikar í Hofi. Skólinn skiptist í allmargar deildir, sem hver heldur sína vortónleika, en auk þess eru nokkrir framhaldsprófstónleikar, útskriftar- og kveðjutónleikar nemenda sem ljúka námi við skólann og stefna jafnan á frekara nám á háskólastigi.

Tónleikahrina vorsins hófst reyndar 30. apríl með vortónleikum blásarasveita skólans á Listasafninu fyrst og síðar í Flugsafninu. Mánudaginn 2. maí voru vortónleikar með samslætti tveggja deilda, rytmísku deildar og skapandi deildar, með mjög fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. Í dag, miðvikudaginn 4. maí, verða framhaldsprófstónleikar Styrmis Þeys Traustasonar í klassískum píanóleik, en Styrmir lætur ekki þar við sitja heldur verða útskriftartónleikar hans í skapandi tónlist, með hljómsveit, mánudaginn 23. maí. Haukur Pálmason gat þess að þetta væri í fyrsta sinn sem nemandi lyki prófi á tveim brautum á sama tíma. Svo heldur þetta áfram og frá 11. maí eru tónleikar flesta daga og stundum oftar en einu sinni á dag.

Of langt mál væri að telja upp alla tónleikana, en ef smellt er hér má sjá dagskrána alla, vortónleika allra deildanna og lokatónleika einstaklinganna. Tónleikarnir fara flestir fram í Hömrum, en líka í Nausti, salnum framan við Hamraborg og í Black Box, Svarta kassanum, sem er á sviði Hamraborgar og gengið inn baksviðs. Ókeypis er á tónleikana.

Á myndinni hér að neðan má líka sjá dagskrána alla.