Fara í efni
Mannlíf

Tómas III – Risavaxið fley siglir hjá Grímsey

Teikning af Tómasi: Rakel Hinriksdóttir

Margir frægir lygalaupar hafa komið og farið í heim þennan. Í Grímsey bjó einn slíkur, Tómas Steinsson á Borgum (1769 - 1843). Tómas gefur kollegum sínum í uppspuna, á borð við Munchhausen barón og fleirum, ekkert eftir. Birtar eru nokkrar ótrúlegar sögur af Tómasi á Akureyri.net í vetur._ _ _

Ósjaldan sást til skipaferða frá Grímsey á þeim árum sem Tómas vaktaði sjóndeildarhringinn við heimskautsbaug. Mörg voru fleyin vegleg, en Tómas sagði gjarnan söguna af því þegar það allra stærsta átti leið hjá. Það var svo stórt, sagði hann, að það var heila viku að sigla framhjá eynni, þrátt fyrir góðan byr. Það sem meira var, þá sigldi það svo nálægt eynni að Grímseyingar gátu stytt sér stundir þessa vikuna með því að fylgjast með því sem fram fór um borð.

Stærsta mastur skipsins var með körfu, sem var svo rúmgóð að þar var myndarleg bújörð, þar sem nautgripir dóluðu sér á beit. Tómas varð svo einn vitni að því, þegar mikið óhapp átti sér stað, en þá skrikaði einu nautinu fótur og datt neðan úr körfunni og stefndi á þilfarið. Þar niðri var gríðarstór pottur, þar sem eldaður var á hverjum morgni hafragrautur fyrir alla áhöfnina. Nú var illt í efni, en nautið féll beint ofan í sjóðandi grautinn og þar á bólakaf. Tómas sagði að ekki hefði sést til nautsins fyrr en allur grauturinn var uppétinn og þá stóð það upprétt í skófunum.

  • Sögurnar af Tómasi eru endurskráðar úr ýmsum heimildum. Helst ber að nefna Handrit Theódórs Friðrikssonar frá 1907, baksíðu Alþýðublaðsins 27.03.1966 og greininni „Gengið um Grímsey” úr sunnudagsblaði Tímans 26.07.1964. Báðar greinar lesnar á www.timarit.is.