Fara í efni
Fréttir

Töluverður snjór en unnið að mokstri

Unnið að mokstri í Þórunnarstræti í morgun. Þetta verklag er víða viðhaft í helstu umferðargötum; snjó blásið strax á vörubíl og ekið með hann á brott. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Töluvert snjóaði á Akureyri um helgina, í nótt bættust um það bil 20 cm við og í bítið var víða illfært um íbúðagötur og stíga. Unnið er að snjómokstri og er mikill fjöldi tækja í notkun á vegum sveitarfélagsins og verktaka.

Logn var í nótt þannig að ekki skóf í skafla heldur liggur lausamjöllin eins og þykk ábreiða yfir bænum. Flestir komust leiðar sinnar en þó varð þriggja bíla árekstur snemma í morgun í Kaupvangsstræti – Gilinu – vegna hálku. Engin slys urðu á fólki, en lögreglan lokaði götunni eftir áreksturinn.

Við Davíðshaga í Hagahverfi efst og syðst í bænum í morgun.

„Það er hiti, þannig að þegar allur þessi snjór þjappast saman, verður ofboðslega hált,“ segir Börkur Árnason, varðstjóri á Akureyri, í samtali við Akureyri.net. „Eina vesenið sem við höfum samt séð í morgun, er í Gilinu, að sjálfsögðu. Við vorum í einhvern klukkutíma að greiða úr þessum árekstri og svo verður bara lokað,“ sagði Börkur og bætti við vegfarendur ættu að gæta sín vel í hálkunni.

Á vef sveitarfélagsins segir að stígamokstur sé í fullum gangi samkvæmt forgangskorti og þegar búið verði að moka götur í forgangi verði hafist handa við að moka íbúðagötur.

Efst í Kaupvangsstræti – Gilinu – laust fyrir klukkan 10 í morgun.

Göngustígur syðst við Mýrarveg í morgun.