Fara í efni
Fréttir

Tólf mánaða skilorð fyrir barnaníðsefni

Karlmaður á Akureyri hefur verið dæmdur í 12 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir vörslu barnaníðsefnis á tveimur DVD-diskum, auk 436.100 króna í sakarkostnað. Diskarnir innihéldu gróft barnaníð, meðal annars nauðganir stúlkna á aldrinum 6-14 ára. Ákærði játaði fyrir dómi þau brot sem honum voru gefin að sök samkvæmt ákæru.

Karlinn var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa föstudaginn 21. janúar 2022 verið með í vörslum sínum á heimili sínu á Akureyri tvo DVD-diska sem á voru myndskeið sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Diskana hafði hann keypt á ferðalögum erlendis fyrir nokkrum árum og flutt til landsins. Á öðrum disknum voru tvö myndskeið, annað rúmar 13 mínútur og hitt rúmar 48 mínútur. Á hinum voru 11 myndskeið sem innihéldu barnaníðsefni, samtals tæpar fjórar og hálf klukkustund. Myndskeiðin voru meðal annars af stúlkum á aldrinum 6-14 ára sem verið var að nauðga.

Brot þau sem ákærði var sakfelldur fyrir varða fangelsi allt að sex árum. Í forsendum dómsins er vísað til 1. og 2. málsgreinar 210. greinar almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 29/2022 þar sem lagt var til að hámarksrefsing vegna brota á þessum ákvæðum hækkaði úr tveimur í sex ár segir meðal annars: „Við mat á grófleika verknaðar skal sérstaklega líta til umfangs brotsins, hvort lífi barns hafi verið stofnað í hættu, hvort barn hafi verið beitt grófu ofbeldi, hvort barn hafi beðið líkams-eða heilsutjón eða hvort brot sé framið á kerfisbundinn eða skipulagðan hátt. Þá er að finna skilgreiningu á barnaníði sem er kynferðisleg misnotkun á barni.“
 
Í dómnum kemur fram að í því myndefni sem ákærði hafði í fórum sínum hafi verið að finna gróft kynferðisofbeldi gagnvart barnungum stúlkum, allt niður í sex ára að aldri. Með háttsemi sinni hafi ákærði stuðlað að og hvatt til frekari brota af sama tagi gagnvart börnum, en markmið ákvæðisins sé að sporna gegn slíkri háttsemi. Við ákvörðun refsingar er horft til þess að um takmarkað magn efnis var að ræða og litið til þess að ákærði á ekki sakaferil að baki, en að öðru leyti eigi ákærði sér engar málsbætur. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, sem með hliðsjón af hreinum sakaferli ákærða þykir rétt að skilorðsbinda til þriggja ára.