Tinna: „Hvers vegna vekurðu hjá mér þrá?“

„Lagið Þrá fjallar í raun um að þekkja sitt virði í hvaða sambandi sem er,“ segir Tinna Óðinsdóttir, þáttakandi í Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár. „Hvort sem það er ástarsamband, vinasamband eða fjölskyldubönd. Held að flestir geti tengt við að setja sig í þau spor að geta týnt sjálfum sér í ofhugsunum og halda að þú hafir gert eitthvað rangt jafnvel. Oft getur þó staðreyndin verið sú að hinn aðilinn er að glíma við innri baráttu og getur kannski ekki tjáð sig um það upphátt. Svo er kannski skemmtilega tvistið við lagið að þú þráir samt að halda í sambandið sama hvað og þá vaknar í raun upp spurningin ,,hvers vegna þú vekur hjá mér þrá”.“
- Þrjú „Akureyrarlög“ taka þátt í Söngvakeppninni í ár; auk Þrá, eru það Eins og þú, í flutningi Ágústs Þórs Brynjarssonar og Norðurljós, sem er í flutningi Bíu en Akureyringarnir Jóhannes Ágúst Sigurjósson og Kristrún Jóhannesdóttir sömdu lagið ásamt söngkonunni og Jóni Arnóri Styrmissyni.
- Akureyri.net fjallar sérstaklega um lögin þrjú. Hér má finna umfjöllun um lag Ágústs og hér um Norðurljós.
- Ágúst og BIA kepptu á fyrra undanúrslitakvöldinu fyrir vika en Tinna stígur á svið í kvöld.
„Lagið er samið af mér og Rob Price sem er lagahöfundur frá Bretlandi og hann hefur samið áður fyrir söngvakeppnina. Við sendum inn demoið sem við höfðum unnið að saman úti í London og komumst inn. Demoið sem við sendum inn var á ensku þannig að ég heyrði í Guðnýju Ósk æskuvinkonu minni að norðan og bað hana um að semja íslenska textann, sem hún gerði líka svona svakalega vel,“ segir Tinna við Akureyri.net. „Síðan fengum við Guðný hann Bjarka Ómarsson með okkur í lið til þess að mixa & pródúsera lagið, það var ótrúlega skemmtilegt ferli og lagið varð mun betra fyrir vikið. Við keyrðum ófáar ferðirnar í stúdíóið hans á Eyrarbakka og vorum að vinna í laginu, tókum upp sönginn, gítarinn, raddir og fleira. Þá var líka tekin ákvörðun um að bæta smá danskafla inn í lagið sem ég held að muni passa vel við í söngvakeppninni!“
Tinna segir ferlið hafa „ótrúlega skemmtilegt og þvílíkt ferðalag. Ég vissi ekki að það væri svona mikið af hlutum sem maður þyrfti að huga að í undirbúningnum. Okkur langaði að búa til skemmtilegt atriði sem myndi ná að spegla stemninguna í laginu, þannig það verður spennandi að sjá útkomuna og heildarmyndina. Við fengum frábæra dansara í atriðið okkar og ég get sko lofað góðri skemmtun. Baldvin Alan og Thomas Benstem eru danshöfundar og þeir eru ótrúlega hæfileikaríkir og gaman að vinna með þeim.“
Hér má hlusta á lagið. Smellið á myndina til þess.