Fara í efni
Fréttir

„Tillaga um sparnað“: Læknadeild við HA

Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir viðrar þá hugmynd í grein sem birtist á Akureyri.net í dag að komið verði á fót læknadeild við Háskólann á Akureyri. 

Mikill læknaskortur hér á landi er staðreynd, segir Ólafur Þór, og verði ekki brugðist hratt við muni geta skapast enn meiri vandi því þörfin muni stóraukast á allra næstu árum. Nokkur hundruð ungir Íslendingar hafi á síðasta áratug farið í læknanám erlendis „á eigin kostnað og fjölskyldna sinna,“ það fólk sé farið að skila sér heim og þegar orðið mikilvægt vinnuafl sem muni um. Vel sé hægt að fara sömu leið hér landi, það yrði ódýrara fyrir íslenska læknanema og búast megi við að ungt fólk frá Norðurlöndunum og ýmsum öðrum, sem nú fari í læknanám til mið- og austur Evrópu, gæti allt eins valið að stunda slíkt nám á Íslandi.

Ólafur Þór útskýrir hvers vegna hann telur koma til grein að setja á fót læknadeild við HA og lýkur greininni á þessum orðum: „Þetta er mitt innlegg til nýrrar ríkisstjórnar sem tillaga um sparnað, því vönduð og skilvirk heilbrigðisþjónusta er góð fjárfesting og mikil þörf er á nýsköpun og breyttu hugarfari.“