Fara í efni
Mannlíf

Tilkomumikið fall af kústhestbaki

„Þú verður að gera eitthvað! Þú verður að gera eitthvað strax!“ hrópaði Ella kennari á mig að tjaldabaki á árshátíð Glerárskóla vorið 1986 en ég var kynnir á hátíðinni. „Brúðuleikhúsið hrundi og aumingja krakkarnir eru háskælandi á sviðinu.“

Þannig hefst Orrablót dagsins þar sem Orri Páll Ormarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, heldur áfram að rifja upp æskuárin á Akureyri.

Ég lét ekki segja mér það tvisvar, greip kústhest sem stóð þar álengdar, brá mér á bak og skeiðaði inn á sviðið – með viðeigandi (ó)hljóðum. Án þess að vera endilega með plan. Í öllu óðagotinu steingleymdi ég hins vegar að sviðið var útbíað í leikmunum og eiginlega um leið og ég varð sýnilegur áhorfendum hnaut ég um stóran púða eða pullu, féll fram fyrir mig og steinlá. Salurinn veinaði úr hlátri og meira að segja blessaðir brúðuleikararnir, sem voru að mig minnir í 1. bekk, voru farnir að brosa út í annað að óförum mínum þegar þeir voru leiddir út af sviðinu.