Þyrla á Akureyri: um 500 milljónir ári
Gert er ráð fyrir að kostnaður við að staðsetja eina af þyrlum Landhelgisgæslunnar á Akureyri yrði um 500 milljónir króna á ári; aukinn kostnaður Gæslunnar það er að segja, m.a. vegna þess að fjölga þyrfti þyrluáhöfnum stofnunarinnar um eina. Þá er reyndar kostnaður við uppbyggingu aðstöðu ekki talinn með. Þetta kemur fram í svari Ásgeirs Erlendssonar upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn Akureyri.net.
Skriflegt svar Ásgeirs Erlendssonar við fyrirspurn um kostnað er eftirfarandi er svohljóðandi:
„Í kynningu sem Landhelgisgæslan lagði fyrir starfshóp um sjúkraflug var lagt upp að stofnunin þyrfti að fjölga um eina þyrluáhöfn til að geta staðsett þyrlu úti á landi í meira mæli. Áætlaður kostnaður við slíka ráðstöfun er áætlaður um 400 milljónir króna. Þá þyrfti að byggja upp aðstöðu fyrir um 250-300 milljónir. Einnig bætist við einhver aukinn rekstrarkostnaður. Gera má ráð fyrir að árlegur kostnaður við staðsetningu þyrlu með áhöfn á bakvakt á Akureyri gæti verið um 500 milljónir á ári án uppbyggingar aðstöðu. Með þessu væri hægt að ná til allra landshluta með þyrlu á innan við 90 mínútum á þokkalegum degi auk þess sem björgunarviðbragð á norður- og austurmiðum myndu styrkjast verulega.“
Skipti sköpum
Ein af þremur þyrlum Gæslunnar var á Akureyri um helgina og Ásgeir Erlendsson segir það hafa skipt sköpum í ákveðnum tilfellum.
„Við vildum staðsetja þyrlu á Akureyri og Vestmannaeyjum í tilraunaskyni um verslunarmannahelgina og aftur núna um helgina á Akureyri vegna Fiskidagsins mikla á Dalvík. Við vildum sjá hvaða áhrif þetta hefði á viðbragðstíma og þjónustu og í ljóst kom að það skipti mjög miklu máli,“ segir Ásgeir í samtali við Akureyri.net.
„Um helgina voru alls sjö útköll, sem er mjög mikið, og þyrlan sem staðsett var á Akureyri sinnti fimm þeirra, þar af þremur vegna slysa. Ef ég tek sem dæmi mótorhjólaslys á hálendinu þá sparaðist klukkutími miðað við að þyrlan hefði verið í Reykjavík. Þessi tilraun sýndi því fram á að í þessum tilfellum skipti það sköpum að hafa þyrluna fyrir norðan.“