Fara í efni
Fréttir

Þungur rekstur HSN en 92 milljóna afgangur

Mynd úr ársskýrslu HSN

Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) var rekin með 92 milljóna króna afgangi á árinu 2022. Þrátt fyrir þá niðurstöðu var rekstur stofnunarinnar þungur allt árið.

Þetta kemur fram í árskýrslu stofnunarinnar en þar segir að miklu skipti vanfjármögnun á hjúkrunarrýmum, aukning kostnaðar við sjúkraflutninga, aukinn kostnaður vegna kjarasamninga sem ekki er bættur að fullu. Afgangur í rekstri skýrist af 270 milljóna króna aukaframlagi í lok árs.

Mörg viðhalds- og uppbyggingarverkefni

Í skýrslunni kemur fram að fjölmörg viðhalds- og uppbyggingarverkefni voru unnin á árinu í samstarfi við Framkvæmdasýsluna - Ríkiseignir. M.a. var lokið við endurnýjun á 2. hæð sjúkrahússins á Siglufirði. Þá var hafist handa við breytingar og viðbyggingu við verslunarmiðstöðina Sunnuhlíð til að hýsa nýja heilsugæslustöð á Akureyri. Samhliða hefur verið unnið að undirbúningi á alútboði á byggingu heilsugæslustöðvar við Þórunnarstræti. Áfram var unnið að undirbúningi á útboði á nýju hjúkrunarheimili á Húsavík sem verður bylting í allri aðstöðu þar.

Erfitt að manna stöður

Mönnun heilbrigðismenntaðs starfsfólks hefur verið stærsta áskorun stofnunarinnar. Í pistli frá framkvæmdastjórn HSN segir að erfiðlega hafi gengið að ráða hjúkrunarfræðinga og heilsugæslulækna á flestar starfsstöðvar HSN bæði í fastar stöður og til sumarafleysinga.

Þá markaðist árið 2022 af baráttunni við COVID-19 faraldurinn en hann rann að mestu sitt skeið fyrri hluta ársins. Á tímabilum fengu margir starfsmenn HSN COVID-19 á sama tíma og faraldurinn herjaði á allt samfélagið. Það hafði veruleg áhrif á starfsemi HSN bæði í heilsugæslu og inni á hjúkrunar- og sjúkradeildum og álagið á starfsmenn var mikið.

Lesa má ársskýrsluna í heild sinni hér: https://island.is/s/hsn/frett/arsskyrsla-hsn-2022