Fara í efni
Fréttir

Þrjár vefverslanir með áfengi á Akureyri

Tvær vefverslanir með áfengi eru starfandi með aðsetur á Akureyri og sú þriðja verður opnuð fljótlega. Skiptar skoðanir eru um þessa starfsemi, hvort tveggja út frá sjónarmiðum lýðheilsu og lögmætis.

Akureyri.net birti í liðinni viku áskorun breiðfylkingar félaga heilbrigðisstétta, forvarnasamtaka og fleiri til yfirvalda um að bregðast við því sem þar er kallað „yfirstandandi lýðheilsuógn vegna stóraukinnar netsölu áfengis.“ Áskorunin var send þingmönnum, ráðherrum og fjölmiðlum.

Hvort hér er á ferðinni lýðheilsuógn eður ei virðist þó ekki trufla almenning því viðtökurnar sýna mikla ánægju með þessa þjónustu. Viðskiptavinir þessara verslana virðast að minnsta kosti ánægðir með þróunina og þann möguleika að ná sér í áfengi á öðrum stað og eftir öðrum leiðum en að heimsækja Vínbúð hins opinbera. Segja má að fólk hafi greitt atkvæði með veskinu.

Aðeins selt til fólks með aldur

Sala á áfengi utan afgreiðslutíma vínbúða hins opinbera hefur tíðkast lengi, lengst af utan við lög og reglur. Verðið á slíkum veigum ber auðvitað keim af því, en það skiptir líklega sjaldnast máli þegar þörfin er brýn.

Hvað sem líður lögmæti eða lýðheilsu er staðreyndin sú að þessi þróun, vefverslun með áfengi, hefur náð til Akureyrar og viðtökurnar virðast sýna að fjöldi fólks fagni þessari breytingu. Varðandi aðgengi að áfengi eru svörin frá Ölföngum og Norðurvíni á sama veg. Við innskráningu í vefverslunina þarf að skrá kennitölu og aðeins fólk sem hefur aldur til nær að skrá sig inn og panta áfengi. Auk þess þarf kennitalan að stemma við kennitölu viðtakandans þegar varan er afhent.

Sótt eða sent heim gegn gjaldi

Vendo hefur starfað með aðsetur á Akureyri í um það bil ár, Ölföng ehf. opnuðu sína vefverslun fyrir tæpum mánuði og Norðurvín er á lokametrunum við undirbúning þess að opna sína vefverslun.

Á vefsíðu Vendo er verslunin skráð sem heildsala. Ölföng bjóða hvort tveggja upp á heimsendingu eða að viðskiptavinir sæki á lagerinn að Laufásgötu 9. Fyrirtækið býður einnig upp á nikótínpúða, sem segja má að séu álíka umdeildir og vefverslun með áfengi. Norðurvín hefur innréttað lageraðstöðu í norðvesturhorni Glerártorgs og mun bjóða upp á hvort tveggja, heimsendingu og að fólk sæki á Glerártorg.

Viðtökurnar frábærar

Ölföng er í eigu Skúla Lórenz Tryggvasonar. Skúli segir viðtökurnar á þeim tæpa mánuði sem verslunin hefur starfað hafa verið hreint frábærar, eins og hann orðar það. Viðskiptavinir hafi tekið vel í opnunina og salan gangi vel.

„Við fögnum þessari breytingu sem er að eiga sér stað, samkeppni er alltaf af hinu góða,“ segir Skúli um þessa þróun á verslun með áfengi. Hann segir fyrirtækið hafa náð góðum samningum við birgja hérlendis og erlendis um góð kjör á vörum og ætli sér að selja á besta verði sem mögulegt er hverju sinni, bjóða upp á góða þjónustu og að opið verði lengur, sem hann segir að allmargir Akureyringar hafi þakkað þeim fyrir, til dæmis að hægt sé að kaupa sér eina rauðvín með matnum eftir kl. 18, hvað þá á sunnudögum.

Norðurvín væntanlegt á Glerártorg

Undirbúningur að opnun vefverslunar með áfengi á Glerártorgi hefur staðið í nokkurn tíma. Rétt er þó að taka fram að ekki verður innangengt í verslunina af gangi Glerártorgs, heldur aðeins utan frá.

Rúnar Þór Brynjarsson er í forsvari fyrir eigendur Norðurvíns og mun sjá um að reka verslunina. Eigendur leggja áherslu á að farið verði að öllum reglum varðandi aldur kaupenda og skilríki. „Þú þarft að skrá þig inn með rafrænum skilríkjum til að geta komist inn á vefverslunina, sem tryggir að þú sért með aldur til að kaupa þér áfengi. Öllum þannig reglum verður fylgt til hins ýtrasta enda viljum við leggja áherslu á að útlit og ímynd Norðurvíns sé smart og elegans. Þetta er ekki sjoppa,“ segir Rúnar Þór um markmið eigendanna. „Við ætluðum að byrja fyrir sumarið, en svo flýgur tíminn og við ákváðum að bíða með þetta þar til núna með haustinu. Okkur fannst þetta spennandi, vildum gera þetta vel og vildum vera í takt við það sem er að gerast á höfuðborgarsvæðinu.“

„Það eru mjög margir spenntir fyrir þessu og við erum bara spenntir að byrja,“ segir Rúnar Þór, en hann og félagar hans standa að vefversluninni Norðurvíni sem ætlunin er að taki til starfa á næstu dögum. Vinnu við innréttingu er lokið og unnið að því að fá vörurnar á staðinn. Vörur verða afhentar af lager verslunarinnar á Glerártorgi en einnig verður hægt að fá heimsent með Wolt.

Ekki verður um eiginlega verslun að ræða þar sem fólk getur komið og verslað heldur eingöngu vöruafhending til viðskiptavina sem hafa klárað sín viðskipti á vef fyrirtækisins, auk heimsendingar. „Öll viðskipti fara fram inni á nordurvin.is þar sem hægt verður að leggja inn pöntun hvenær sem er,“ segir Rúnar Þór. Opið verður alla daga til kl. 23 og til miðnættis um helgar.

Bjóða inneignir í leikjum á Instagram

Ölföng og Norðurvín eiga það sameiginlegt að nýta sér samfélagsmiðla. Til að mynda hafa bæði fyrirtækin boðið upp á leiki á Instagram þar sem í boði voru inneignir hjá fyrirtækjunum fyrir að fylgja þeim á Instagram og aukavinningur fyrir að deila í story og merkja viðkomandi fyrirtæki, eða deila færslu og merkja vin. Annað fyrirtækið bauð inneign upp á 100.000 krónur og hitt 30.000 krónur.