Þrautseigja og aðlögunarhæfni
Úkraína er mikilvægasta markaðssvæði Ice Fresh Seafood, sölufyrirtækis Samherja, fyrir uppsjávarafurðir, síld, loðnu og makríl. Innrás Rússa í landið í febrúar 2022 gjörbreytti öllum aðstæðum varðandi sölu og afhendingu afurða eins og nærri má geta en með „góðri og þéttri samvinnu hafa viðskiptin gengið upp en ástandið gerir vissulega flesta hluti grátlega erfiða og auðvitað vonar maður að betri tímar séu í vændum,“ segir Jóhannes Már Jóhannesson sölu- og markaðsstjóri Ice Fresh Seafood í áhugaverðri umfjöllun á vef Samherja á dögunum.
Verksmiðja jöfnuð við jörðu
Jóhannes Már hefur selt sjávarafurðir til Úkraínu um langt árabil og er í reglulegu sambandi við kaupendur þar í landi. „Okkar stærsti viðskiptavinur er Ukranian Fish Company, sem hafði náð að vaxa nokkuð hratt fram að stríðsátökunum. Innrásin setti eðlilega stórt strik í reikninginn en fyrirtækið rak tvær stórar verksmiðjur, glæsilegar fiskverslanir og vinsæla veitingastaði í Úkraínu. Rússar yfirtóku landsvæðið þar sem önnur verksmiðjan var staðsett og jöfnuðu hana algjörlega við jörðu,“ segir Jóhannes Már.
Verksmiðja Ukranian Fish Company í Kiev. Félagið rak verksmiðju í austurhluta landsins, sem jöfnuð var við jörðu.
Hin verksmiðjan er í höfuðborginni og enn í rekstri, segir Jóhannes, þó svo að hún sé ekki keyrð á sömu afköstum og fyrir stríð. „Verksmiðjan er vel búin og grípa hefur þurft til viðamikilla ráðstafana vegna ástandsins. Aðallega tengist það rafmagni þar sem ekki er hægt að tryggja stöðugt rafmagn eftir hefðbundnum leiðum.“
„Þessu til viðbótar þá var stór frystigeymsla á svæðinu sprengd í loft upp en þar átti UFC verulegt magn í geymslu, að sögn Jóhannesar. Ástandið í þessu stríðshrjáða landi hefur líka gert það að verkum að fólk hefur þurft að flýja og aðstæður eru víða mjög bágbornar, innviðir eru mjög laskaðir. Annar stór viðskiptavinur okkar rekur verksmiðju í Lviv, sem er í vestanverðu landinu, ekki langt frá Póllandi og góðu heilli er sú verksmiðja enn í gangi,“ segir Jóhannes Már.
Jóhannes Már Jóhannesson, sölu- og markaðsstjóri Ice Fresh Seafood, undirbýr fjarfund með fulltrúum UFC í Úkraínu.
Afurðir til Litháen og þaðan til Úkraínu
Í kjölfar innrásar Rússa lokuðust hafnir við Svartahaf og því ekki hægt að senda flutningaskip þangað eins og áður. Unnar Jónsson forstöðumaður flutningasviðs Samherja segir að þrátt fyrir flókna stöðu hafi tekist að koma íslenskum afurðum til Úkraínu.
„Við vorum að senda frystiskip með 4.000 - 4.500 tonn í einu inn í Svartahafið, til Úkraínu. Magnið sem fer til Úkraínu er reyndar minna en var og nú fer fiskurinn með frystiskipum til Klaipeda í Litháen og þangað sækja úkraínskir kaupendur okkar hann á flutningabílum. Það eru einungis úkraínskir bílar og bílstjórar sem sjá um þá flutninga, því öðrum bílum er ekki hleypt inn í landið, auk þess sem bílar frá öðrum löndum eru ekki tryggðir til ferða þangað,“ segir Unnar.
Hér má sjá leiðina sem afurðirnar fara frá Íslandi til Úkraínu.
„Það leið merkilega stuttur tími frá því að stríðið braust út, þar til fiskflutningar um Klaipeda til Úkraínu komust á gott skrið. Vegna skemmda á verksmiðjum og frystigeymslum stjórnast flutningar og birgðahald af ástandinu frá degi til dags. Ég hef heyrt að þeir séu jafnvel bara að sækja það sem er unnið þann daginn. Ástæðan er þá sú að ekki er hægt að treysta á að rafmagn sé til staðar til að keyra geymslurnar og því hætta á að hráefnið skemmist,“ segir Unnar Jónsson.
Oleg Luschyk forstjóri UFC við eina af verslunum fyrirtækisins.
Þrautseigja og aðlögunarhæfni
„Þegar markaðurinn í Rússlandi lokaðist steig Úkraína sterk inn og tók að stórum hluta yfir þau viðskipti. Það eru vandfundnir traustari og betri viðskiptaaðilar, þrautseigja þeirra og aðlögunarhæfni hefur verið aðdáunarverð á þeim erfiðu tímum sem þjóðin hefur gengið í gegnum. Með góðri og þéttri samvinnu hafa viðskiptin gengið upp en ástandið gerir vissulega flesta hluti grátlega erfiða og auðvitað vonar maður að betri tímar séu í vændum,“ segir Jóhannes Már Jóhannesson.
Oleg Luschyk forstjóri Ukranian Fish Company hefur margsinnis heimsótt Ísland, síðast í sumar. Þá færði hann Samherja tvo áletraða platta. Á öðrum þeirra (til hægri) er stjórnendum og starfsfólki Samherja þakkað fyrir mikilvægan stuðning og aðstoð á erfiðum tímum, sem hafi bjargað og gert mögulegt að endurreisa starfsemi fyrirtækisins.
Yfirskriftin á plattanum til vinstri er „Samvinna gerir öfluga aðila ósigrandi“ og er gjöf til Samherja í tilefni þess að í ár eru 40 ár liðin frá því frændurnir Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Þorsteinn Vilhelmsson keyptu allt hlutafé í Samherja hf.