Fara í efni
Menning

Þorvaldur og dóttirin Ísabella í „Stafrófinu“

Í nýrri bók, Stafróf knattspyrnunnar, eftir Guðjón Inga Eiríksson, er víða komið við, innan lands og utan. Í bókinni er fjölmargt úr heimi knattspyrnunnar rifjað upp, íslenskt og erlent. Heiti hvers kafla er bókstafur eins og ráða má af nafninu og í Þ-kaflanum kemur meðal annars við sögu Akureyringurinn Þorvaldur Örlygsson, knattspyrnumaður úr KA og þjálfari, sem er nú er formaður Knattspyrnusambands Íslands. 
 
„Þorvaldur var þjálfari KA í nokkur ár en hætti í júlí árið 2005. Þetta var nokkuð óvænt fyrir þá sem þekktu ekki til, en ástæðan gat ekki verið skiljanlegri. Ísabella, dóttir hans, þriggja ára gömul, fæddist með nýrnasjúkdóm og þurfti nú á nýju nýra að halda. Faðir hennar reyndist heppilegasti gefandinn,“ segir í bókinni.
 

Viðtal við Þorvald sem birtist í Morgunblaðinu 23. ágúst árið 2005, daginn sem þriggja ára einkadóttir Þorvaldar og eiginkonu hans, Ólafar Mjallar Ellertsdóttur, gekkst undir aðgerð á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og fékk nýtt nýra.

„Þetta er verkefni sem tekur sinn tíma og það var ekki hægt að gefa af sér á fleiri stöðum á meðan, þannig að fótboltinn varð að víkja í bili,“ sagði Þorvaldur í viðtali við Morgunblaðið sem vitnað er til í bókinni.

Síðan segir Guðjóni Ingi: „Hann var þó alls ekki hættur afskiptum af knattspyrnunni og átti  eftir að þjálfa víða á næstu árum: Fjarðabyggð, Fram, sem hann lék með á láni frá Nottingham Forest sumarið 1991, ÍA, HK, Keflavík, íslenska karlalandsliðið, skipað leikmönnum undir 19 ára aldri, og Stjörnuna. Hjá síðastnefnda liðinu gegndi hann svo störfum íþróttastjóra þegar hann var kosinn formaður KSÍ. Af framansögðu má sjá að Þorvaldur hefur lifað og hrærst í knattspyrnunni frá unga aldri. Hann þekkir vafalítið alla króka hennar og kima, en ótalið er að hann lék 41 landsleik á árunum 1988 til 1996 og skoraði í þeim sjö mörk. Þrjú þeirra komu í vináttulandsleik gegn Eistum á Akureyrarvelli í ágúst 1994. Leiknum lauk með sigri Íslands, 4-0. “

Hvernig bók er þetta? Því svarar höfundurinn, Guðjón Ingi Eiríksson:

Hér er örlítið brot um efnistökin, án þess að nefna of mikið: Hver týndist um borð í Herjólfi? Hvaða söngkona hitti ekki markið? Hvað er Rabona? Hver dó á vellinum en var lífgaður við? Hver var þekkt fyrir flikk-flakk-innköst? Hver fann HM-styttuna? Hver setti snákinn í jakkavasann hjá samherja sínum? Hver ældi á völlinn? Já, og hvaða mikli markaskorari kúkaði á sig í landsleik?