Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar eygja von en KA-menn eru úr leik

Ingimar Arnar Kristjánsson gerði eina mark leiksins í gær þegar Þór vann ÍR í Boganum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Ingimar Arnar Kristjánsson gerði eina mark leiksins í gær Þór vann ÍR 1:0 í 3. riðli A-deildar Lengjubikarkeppninnar. Þórsarar eiga því enn möguleika á að komast í undanúrslit. KA-menn hafa lokið keppni í ár.

Þórsarar voru manni færri þegar Ingimar skoraði því Ibrahima Balde var rekinn út af tæpum 10 mínútum áður. Þórsarar eru með sex stig eins og ÍR; þeir töpuðu fyrsta leiknum, fyrir Aftureldingu, en hafa nú unnið HK og ÍR

Þór fær FH í heimsókn í Bogann í síðustu umferðinni um næstu helgi en bæði ÍR og Afturelding eiga eftir að mæta HK.

Leikskýrslan

Staðan í riðlinum

KA lauk keppni í Lengjubikarnum á fimmtudagskvöldið þegar liðið tapaði 5:2 fyrir Fram í Boganum í 2. riðli A-deildar. KA strákarnir fengu fimm stig í jafn mörgum leikjum.

Jakob Byström skoraði fyrir Fram á 20. mín. en Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði fyrir KA aðeins mínútu síðar. Már Ægisson og Guðmundur Magnússon bættu við mörkum fyrir Fram í fyrri hálfleik og staðan því 3:1 að honum loknum. Þorri Stefán Þorbjörnsson gerði fjórða mark snemma í seinni hálfleik og Guðmundur Magnússon skoraði öðru sinni eftir klukkutíma og breytti stöðunni í 5:1.
 
Framarinn Kennie Chopart gerði sjálfsmark undir lokin og lokatölur því 5:2.
 

Leikskýrslan

Staðan í riðlinum