Fara í efni
Íþróttir

Þór í góðri stöðu – fær HBH í heimsókn í dag

Þormar Sigurðsson og félagar í Þór hafa verið á góðu flugi undanfarið. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar verða komnir aftur á topp Grill66 deildarinnar í handbolta fyrir kvöldið ef allt verður með felldu. Þeir taka á móti liði Handknattleiksbandalags Heimaeyjar (HBH) í Íþróttahöllinni kl. 17.30.

Lið Selfoss er efst í deildinni með 23 stig að loknum 14 leikjum en Þórsarar með 22 stig og eiga leikinn í dag til góða. Mótherjarnir í dag, HBH, eru neðstir í deildinni með tvö stig úr 12 leikjum; HBH vann ungmennalið Hauka 43:40 á heimavelli í október en hefur tapað hinum 11 leikjunum.

Staða Þórsliðsins er óneitanlega góð og spili það af eðlilegri getu í þeim þremur leikjum sem eftir eru, enda Þórsarar í efsta sæti deildarinnar og leika á ný í efstu deild Íslandsmótsins næsta vetur, Olísdeildinni.

Vitaskuld er aldrei neitt öruggt þegar íþróttir eru annars vegar en leikirnir sem Þórsarar eiga eftir eru gegn tveimur neðstu liðum Grill66 deildarinnar; gegn HBH í kvöld, sem fyrr segir, og svo skemmtilega vill til að liðin mætast aftur á föstudagskvöldið, í Eyjum. Í lokaumferðinni, lauardaginn 29. mars, fá Þórsarar svo lið HK2 í heimsókn. HK2 er næst neðst í deildinni með fjögur stig.

Þórsarar töpuðu fyrir Víkingum í Reykjavík í fyrstu umferðinni og síðan fyrir Selfyssingum, einnig á útivelli, í byrjun febrúar. Sigur hefur unnist í hinum 11 leikjunum.