Fara í efni
Íþróttir

Þór enn í hættu – Það blés en þó ekki byrlega

Marc Rochester Sörensen fagnar eftir að hann jafnaði fyrir Þór gegn ÍR í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þór og ÍR gerðu 1:1 jafntefli á Þórsvellinum (VÍS-vellinum) í dag í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. 

Hávaðarok setti mikinn svip á leikinn. Hlýtt var sem betur fer en stíf sunnanátt sem gerði liðunum erfitt fyrir. Þórsarar léku undan vindi í fyrri hálfleik en það voru þó gestirnir skoruðu þá og höfðu forystu í hálfleik, en Daninn Marc Rochester Sörensen jafnaði í þeim seinni.

Þórsarar eru enn í fallhættu þegar tveir leikir eru eftir. Þeir eru í þriðja neðsta sæti með 20 stig úr jafn mörgum leikjum. Lið Dalvíkur/Reynis tapaði í dag fyrir Leikni og er fallið; Dalvík/Reynir er með 13 stig að loknum 20 leikjum og Grótta, sem vann Fjölni í dag, hefur 16 stig.

Þór á eftir að mæta botnliðunum tveimur, Dalvík/Reyni á heimavelli um næstu helgi og Gróttu á Seltjarnarnesi viku síðar og þurfa Þórsarar að vinna annan hvorn leikinn til að vera öruggir með að halda sæti í deildinni.

Nánar á morgun

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Þórsarar aðgangsharðir upp við mark ÍR einu sinni sem oftar í fyrri hálfleik.

Sönnunargagn 1. Hressilega blés meðan á leiknum stóð.