Fara í efni
Íþróttir

Þjálfari hjá KFA í átta mánaða bann

Dómstóll ÍSÍ hefur úrskurðað Grétar Skúla Gunnarsson, þjálfara hjá Kraftlyftingafélagi Akureyrar, óhlutgengan í átta mánuði og sætir hann útilokun frá þátttöku í æfingum, keppni og sýningum innan Kraftlyftingasambands Íslands og sviptur rétti til að gegna trúnaðarstörfum innan sambandsins. Dómurinn er stytting á fyrri úrskurði stjórnar Kraftlyftingasambands Íslands úr 12 mánuðum í átta.

Upphaflega hafði stjórn KRAFT kært Grétar Skúla til dómstóls ÍSÍ með kæru sem barst dómstólnum 10. janúar, en málinu var þá vísað frá þar sem kærufrestur var löngu útrunninn. Almennur kærufrestur er sjö dagar og rann út 30. október 2023.

Stjórn Kraftlyftingasambands Íslands dæmdi Grétar Skúla síðan í 12 mánaða bann með úrskurði 15. ágúst á þessu ári og var sá úrskurður byggður á því að hann hafi sýnt af sér ítrekaða óíþróttamannslega framkomu á bikarmóti KRAFT þann 22. október 2023. Í kjölfar mótsins bárust stjórn KRAFT fjölmargar kvartanir og ábendingar vegna framkomu og hegðunar í mótinu, þar á meðal í skýrslu frá dómurum mótsins.

Úrskurður stjórnar KRAFT byggir á fimm tilvikum.

  • Grétari Skúla er gefið að sök að hafa veitt aðstoðarmanni keppanda (A) á mótinu högg með olnboga í brjóstkassa þegar þau mættust í dyragætt að áhorfendasal, fyrirvaralaust og án tilefnis. Frásögn konunnar sem varð fyrir högginu var staðfest af vitnum og með áverkavottorði. Atvikið var kært til lögreglu. 
  • Þjálfari og aðstoðarmaður keppanda á mótinu (B) lýsir því að Grétar Skúli hafi veitt honum högg með öxl í brjóstkassa þar sem hann stóð við dyragætt að upphitunarssvæði og ræddi við A. Vitni staðfesta frásögn B á þá leið að hann hafi stigið til hliðar til að hleypa Grétari Skúla framhjá, en hann hafi þá keyrt öxlina í axlar- eða bringusvæði B.
  • Þrjú tilvik sem einnig er vísað til varða munnlegar athugasemdir sem honum er gefið að sök að hafa viðhaft á mótinu, ógnandi hegðun á upphitunarsvæði þegar keppandi frá KFA hafi verið væntanlegur á svæðið þar sem þröngt var á þingi, ummæli um vonda lykt af ól sem hann notaði við að vefja keppanda KFA af því að hann væri alltaf að vefja ólinni um typpið á sér og ummæli um framkvæmd mótsins þar sem vantaði svokallaðar metaskífur og orsakaði tafir á mótinu þar sem hann hafi sagt að „fáránlegt væri að setja konur í þetta hlutverk því þær gætu ekki staðið við svona verkefni.“ Þá kemur einnig fram að dómari hafi verið sakaður um samsæri gegn KFA og að KRAFT væri að gera þetta viljandi. 

Neitar ásökunum og segir samsæri gegn KFA

Grétar Skúli neitar ásökunum sem fram koma í úrskurði KRAFT og málatilbúnaði fyrir dómstóli ÍSÍ. Í vörn sinni segir hann meðal annars að hann og A hefðu ekki rekist á hvort annað ef A hefði horft fram fyrir sig. Þar heldur hann því einnig fram að A hafi lagt mikið á sig í gegnum tíðina við að bregða fæti fyrir sig með tilefnislausum kærum til lögreglu, sem ekki hafi leitt til að kærur hafi verið gefnar út á hendur honum.  Viðskiptin við B segir hann hafa verið óviljandi árekstur, þröngt hafi verið á mótinu og hafi hann átt erfitt með að ganga mikið um. Þá neitar hann því að hafa viðhaft óviðeigandi ummæli í samræðum við aðra félaga úr KFA. 

Vörn Grétars Skúla byggði einnig á því að úrskurðaraðilar hafi tengsl við A í málinu og hafi ítrekað staðið í vegi fyrir því að hann geti sinnt starfi sínu sem þjálfari. Þá hélt hann því einnig fram að ekki hafi verið gert hlé á streymi frá mótinu á meðan hlé var á keppni og virðist það meðal annars hafa verið í þeim tilgangi að taka upp einkasamtöl hans við keppendur í mótinu og samtal hans við dómara. Það varði við persónuverndarlög.

Íþyngjandi og áhrif á tekjuöflun

Grétar Skúli byggði vörn sína einnig á því að málið hefði verið til umfjöllunar hjá dómstólnum í máli nr. 1/2024 og hafi því verið vísað frá dómi þar sem kærufrestur hafi verið liðinn. Þegar stjórn KRAFT hafi úrskurðað í málinu hafi verið liðnir sex mánuðir frá frávísuninni og tíu mánuðir frá því að umrætt mót var haldið og því með öllu óljóst hvers vegna stjórnin kaus að úrskurða í málinu. Þá sé úrskurður um 12 mánaða bann mjög íþyngjandi fyrir hann, hafi áhrif á tekjuöflun og möguleika hans til að sinna vinnu enda hafi hann atvinnu af því að þjálfa og aðstoða fólk á mótum. Því þurfi skýrar heimildir til að beita slíkri refsingu.

Þá mótmælir hann öllum staðhæfingum í úrskurði KRAFT um ámælisverða hegðun. Hann hafi talið að með frávísun málsins í febrúar hafi vinnufriður skapast og hann talið að málinu væri lokið. 

Stytt um fjóra mánuði

Dómstóll ÍSÍ tók málið til meðferðar á grundvelli greinar 40.1. í lögum ÍSÍ þar sem segir meðal annars að stjórnir sérsambanda geti kveðið upp óhlutgengisúrskurði yfir íþróttamönnum sem brotlegir eru, en skylt er að skjóta slíkum úrskurðum til dómstóls ÍSÍ og ber honum að taka málið fyrir. 

Dómstóllinn tekur undir þá afstöðu Grétars Skúla að langur tími sé liðinn og að um mjög íþyngjandi niðurstöðu sé að ræða, en metur það svo að málatilbúnaður sóknaraðila byggi á nægilega skýrum atvikum og gögnum svo hægt sé að beita viðurlögum og styttir því tímalengdina úr 12 mánuðum í átta. 

Grétar Skúli hefur áfrýjað málinu til áfrýjunardómstóls ÍSÍ.