Fara í efni
Fréttir

Theodór Ingi verður efstur hjá Pírötum

Theodór Ingi Ólafsson, forstöðumaður, varð efstur í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi, og skipar því efsta sæti á lista framboðsins í kjördæminu við Alþingiskosningarnar 30. nóvember. Rafrænu prófkjörinu lauk seinni partinn í dag og voru úrslit kynnt í kjölfarið. Austurfrétt greinir frá.

Theódór býr í Reykjavík þar sem hann starfar sem forstöðumaður í íbúðakjarna fyrir geðfatlaða. Hann uppalinn á Akureyri og útskrifaðist með BA gráðu í fjölmiðlafræði frá háskólanum þar.

Í öðru sæti varð Adda Steina, fyrrum tómstunda- og forvarnafulltrúi Fljótsdalshéraðs. Viktor Traustason, sem bauð sig fram til forseta í vor, endaði þriðji. Hann hefur búið mikið til á Austurlandi síðustu tvö ár og unnið verkamannastörf.

Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður á Seyðisfirði, varð fjórði og Guðrún Ágústa Þórdísardóttir, fyrrum varaþingmaður flokksins í kjördæminu, fimmta.

Alls tóku níu einstaklingar þátt í prófkjörinu. Í kjördæminu voru greidd 660 atkvæði. Kosningin er bindandi fyrir fimm efstu sætin. Þátttakendur í prófkjörinu hafa þó sólarhring til að ákveða hvort þeir þiggi viðkomandi sæti. Kjörstjórn raðar síðan í önnur sæti.