Fara í efni
Mannlíf

„Það var svo margt, sem við vissum ekki um fuglana“

Sverrir Thorstensen í stofunni sinni í Lönguhlíð. Mynd Rakel Hinriksdóttir

„Ég get ímyndað mér, að það hafi verið kómískt að fylgjast með okkur,“ segir Sverrir Thorstensen, fuglamerkingarmaður og fyrrum náttúrufræðikennari, þegar hann rifjar upp aðferðir sínar við að fanga fugla til merkingar í gegn um tíðina.

„Ég var með alla fjölskylduna með mér í því að eltast við lóuunga á sumrin, til dæmis. Konuna mína, Þóreyju Ketilsdóttur og synina þrjá, Ketil, Kristján og Sigurð. Við komumst fljótt upp á lag með þann gjörning. Ef við sáum lóu á þúfu, eins og hún væri á vakt, þá gekk þetta út á að keyra eins nálægt henni og hægt var. Þá skönnuðum við umhverfið til þess að sjá hvar ungarnir voru á ferðinni. Þá þeyttist öll fjölskyldan út úr bílnum og við hlupum á eftir þessum ungum og þeir síðan merktir.“

Þórey og synir þeirra hjóna; Ketill, Sigurður og Kristján. Öll fjölskyldan fór saman í fuglamerkingar. Mynd úr safni Sverris

Í dag kemur eflaust enn fyrir að Sverrir taki á sprettinn á eftir lóuunga, en nú er hann líka með allskonar gildrur, sem hann getur notað til þess að ná smáfuglum. „Ég er með nokkur búr sem ég set mat í, þar sem þeir hoppa inn en rata ekki út aftur. Svo er ég með net sem ég strengi upp á haustin og þrestirnir lenda í því þegar þeir reyna að komast í reyniberin,“ segir Sverrir, en er fljótur að bæta við að þetta sé sérstakt fuglanet, sem skaði ekki dýrin, þegar hann sér skelfingarsvipinn á blaðamanni.

Netið sem Sverrir strengir upp í garðinum til þess að ná skógarþröstum á reyniberjafylleríi er sérhannað til þess að fuglinn meiðist ekki. Mynd úr safni Sverris

Reyndar, ef maður er nærri hreiðri eiga karlfuglarnir það til að hvæsa og reyna að slá mann, sem er ekkert þægilegt

Einhverjum þætti kannski einkennilegt, að sjá mann á ferli í skógi með stórt net. Hér um slóðir, eru ágætis líkur á því að þar sé Sverrir á ferðinni. Á sumrin er ekki ólíklegt að sjá hann í Kjarnaskógi eða í öðru skóglendi á svæðinu, með lítinn hátalara og netið góða. „Ég spila sönghljóð fuglanna úr símanum mínum og þeir koma til þess að athuga málið.“

Föngun sjófugla er öðruvísi, en þá nær Sverrir fuglunum með löngum stöngum með snöru á endanum. „Lundunum næ ég með háfi. Álftirnar nálgast ég á vötnum, á þeim tíma sem þær eru að fella fjaðrirnar og geta ekki flogið,“ segir Sverrir, en hann gefur ekki mikið fyrir þann orðróm að álftir geti verið hættulegar. „Reyndar, ef maður er nærri hreiðri eiga karlfuglarnir það til að hvæsa og reyna að slá mann, sem er ekkert þægilegt, ef þeir ná höggi.“

Þórey með álftahópi sem hún og Sverrir hafa fangað og spennt í spennitreyjur, allt klárt fyrir merkingar. Mynd úr safni Sverris

Endurheimturnar voru nánast eingöngu þær, þegar ég var að byrja, að fuglinn fannst dauður og það segir aðeins takmarkaða sögu

Markmiðið með fuglamerkingum er margþætt, að sögn Sverris. „Almenn forvitni um lífríkið rekur þetta áfram, afhverju eru fuglarnir hér - en ekki þar. Afhverju gengur þeim vel núna, en ekki kannski á næsta ári. Hvert fara þeir á veturna og hvaða leið fara þeir?“ Tækninni í fuglamerkingum hefur fleygt fram, en upphaflega gekk þetta út á að ná að setja málmhring á fót, segir Sverrir. „Þá þurfti náttúrulega að finna fuglinn aftur. Endurheimturnar voru nánast eingöngu þær, þegar ég var að byrja, að fuglinn fannst dauður og það segir aðeins takmarkaða sögu.“

 Sverrir nær sjófuglum með löngum stöngum með snöru á endanum. Mynd: Eyþór Ingi

Það kom í ljós að spóinn er sannur Íslendingur og kemur við á Tenerife á leið sinni til Afríku

Núna eru til staðsetningartæki sem hafa gjörbylt eftirliti með fuglum. „Þetta eru pínulítil tæki, sem eru sett á hring á fót eða fest á bakið á þeim. Upplýsingarnar koma beint í símann hjá manni.“ Sverrir segir að margt hafi komið á óvart eftir að tæknin varpaði ljósi á hátterni fuglanna. „Við höfðum haft á röngu að standa um margt, og sumt vissum við bara alls ekki. Tökum spóann til dæmis. Einu vísbendingarnar um hvert þeir fara á veturna, voru að stundum fundust dauðir spóar í Afríku. Þá urðum við forvitin um það hvaða leið þeir fara.“ Það kom í ljós að spóinn er sannur Íslendingur og kemur við á Tenerife á leið sinni til Afríku. En margir fara alla leið í einu flugi, sem tekur allt frá einum og hálfum sólarhring til tveggja.“

Sverrir getur talað endalaust um fugla. En nú, þegar viðtalinu er lokið, sitjum við í þögn með kaffibollana og fylgjumst með litlum spörfuglum að næra sig í garðinum í Lönguhlíðinni. „Ég get setið hérna, klukkutímum saman, og bara fylgst með fuglunum. Hvað þeir eru að gera, hvernig þeir bera sig að. Þá fyllist ég einhverri ró,“ segir Sverrir að lokum. 

Sverrir með síðasta kaffibollann eftir fuglamerkingartúr í Flatey á Breiðarfirði. Mynd: Sindri Swan

Blaðamaður vill koma sérstökum þökkum á framfæri við ljósmyndarana Eyþór Inga Jónsson og Sindra Swan, fyrir að glæða viðtalið lífi með ljósmyndum sínum.