Það tekur enginn sperðlana frá mér

„Sennilega hef ég fárast yfir forræðishyggju heilsupostula, sjálfskipaðra sem opinberra, jafn lengi og ég hef skrifað pistla. Það eru að verða hátt í fjörutíu ár,“ segir Stefán Þór Sæmundsson í pistli sem Akureyri.net birti í morgun.
„Já, alveg frá því á níunda áratug síðustu aldar hef ég leynt og ljóst hæðst að þeim sem hafa boðað líkamsrækt, grasát, vatnsþamb, reykleysi, sætindabann og bindindi á nánast allt sem gleður mannsins hjarta. Með árunum fór ég reyndar eitthvað að þroskast og hef nú átt ansi langan tíma þar sem hollusta og heilbrigði hafa verið í fyrirrúmi en þó aldrei algjörlega,“ segir Stefán en vinur hans eða hliðarsjálf, Aðalsteinn Öfgar, er ekki á sama máli. Leiðbeiningar þar til bærra yfirvalda um gott mataræði eru honum ekki að skapi:
„Sko, það skal enginn taka það af mér að borða steiktar kjötfarsbollur eða soðnar með bræddu smjörlíki, pylsur, sperðla, kjötbúðing, fiskbúðing í dós, franskbrauð með miklu smjeri og spægipylsu, pakkasúpur, Royal búðing, djúpsteikt hnossgæti, lúgumat, kók og sælgæti svo ég tali nú ekki um nokkra öllara yfir boltanum og kartöfluflögur með.“
Pistill Stefáns Þórs: Það tekur enginn sperðlana frá mér