„Það er gaman að horfa á okkur spila“
Kvennalið Þórs í körfubolta leikur mikilvægan leik á morgun þegar stelpurnar taka á móti liði Hauka í átta liða úrslitum VÍS-bikarsins. Stuðningsfólki er væntanlega í fersku minni þegar þær fóru alla leið í úrslitaleikinn í fyrra eftir sigur gegn Grindvíkingum í undanúrslitum og síðan tap gegn Keflavík í úrslitaleik í Laugardalshöllinni. Á morgun er allt undir, sigurliðið verður þátttakandi í bikarvikunni, tapliðið ekki. Undanúrslit og úrslit verða reyndar spiluð í Smáranum í Kópavogi, ekki Laugardalshöll, af einhverjum ástæðum.
Liðin sem mætast á morgun hafa sýnt það í vetur að hér eru á ferðinni tvö af bestu liðum landsins. Haukar eru á toppi Bónusdeildarinnar að loknum 14 umferðum, hafa unnið 11 leiki, og Þór í 2. sæti með níu sigra.
Fjölhæft baráttulið með mikinn hraða
Körfuboltakonurnar í Þór hafa margar vakið mikla athygli í vetur fyrir frábæra frammistöðu, jafnt heimastelpurnar sem þær erlendu. Meðal þeirra eru hin hollenska Esther Fokke og franska Amandine Toi, sem sífellt skemmta áhorfendum með frábærum tilþrifum, mikilvægum körfum og baráttu í leikjunum. Tíðindamaður frá Akureyri.net hitti þær stöllur í stutta stund og fékk þær til að ræða um leikinn á morgun.
Amandine Toi ásamt ungum aðdáendum eftir sigurleik í vetur. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Þegar þær eru spurðar um árangur liðsins í vetur og ástæður þess hve vel liðinu hefur gengið að undanförnu berst talið að upphafi leiktíðarinnar og tapleikjunum, sem allir komu á útivelli snemma á tímabilinu, með fámennan hóp og liðið að ferðast á leikdegi.
„Já, það var í upphafi leiktíðarinnar og við vorum að átta okkur á hvernig við ættum að spila saman,“ segir Esther þegar þær eru spurðar út í hvað búi að baki árangri liðsins. „Við vorum nýtt lið og varðandi taktinn í liðinu þá höfðum við ekki langt undirbúningstímabil, en þegar við byrjuðum, fórum að læra inn á hverja aðra, vita hvernig hinar vilja gera hlutina og hvar þær vilja vera á vellinum þá fór að ganga betur. Við erum mjög fjölhæfar, allar í liðinu geta skorað,“ segir hún og bendir á að ef hún eða Amandine eru stöðvaðar taki hinar bara við keflinu, Eva, Emma, Natalia og Maddie. Allar geta skorað og gera það!
Amandine tekur undir með Esther varðandi einkenni og karakterinn í liðinu. „Við erum mjög fjölhæfar, getum skorað mikið af stigum og gerum það. Við þurfum að vera snöggar og spila hratt og ég held að það sé orðið erfiðara fyrir hin liðin að halda í við okkur og berjast við að stöðva okkur í 40 mínútur,“ segir Amandine.
Amandine og Esther eru báðar frábærar skyttur. Hin fyrrnefnda tryggði Þór sigur á Tindastóli á Sauðárkróki í síðasta leik með 3ja stiga körfu á lokasekúndunni og sú hollenska gerði alls sjö 3ja stiga körfur í leiknum. Myndir: Helgi Heiðar Jóhannesson.
Og jafnvel þótt leikmannahópurinn sé fámennur segir Amandine það vera eitthvað sem þær hafa þurft að venjast. „Við erum að venjast því, nú erum við búnar að laga okkur að þessu álagi, en þegar við vorum að byrja, ferðast í fimm tíma í útileiki og ekki vanar að spila svona mikið þá hafði það áhrif, en núna náum við að búa okkur undir álagið, tímasetja hvíld og endurheimt,“ segir hún.
Einbeita sér að þessum leik
Eins og alltaf er það bara næsti leikur sem skiptir máli og þær hafa ekki miklar áhyggjur af álaginu sem fram undan er.
„Þetta verður löng leiktíð,“ segir Esther, „því ég trúi því virkilega að við getum náð langt með þetta lið. En það veltur á því hvernig við náum að endurheimta orku eftir leiki, hvernig við æfum. Þetta er alveg opið,“ segir hún. Rétt er að hafa í huga að liðin sem fara alla leið í úrslitaeinvígi deildarinnar gætu verið að leika oddaleik 19. maí.
Í leiknum á morgun mæta þær einu af bestu liðum landsins, mögulega besta liði landsins ef taflan í Bónusdeildinni lýgur ekki. En þær hugsa þó eingöngu um leikinn á morgun sem næsta leik sem þær einbeita sér að og leggja allt í sölurnar til að vinna – eins og í öðrum leikjum.
Amandine Toi og Maddie Sutton fagna með tilþrifum eftir glæsilegan sigur á Íslandsmeisturum Keflvíkinga í Íþróttahöllinni á Akureyri fyrir skömmu. Mynd: Skapti Hallgrímsson
„Fyrir mér, og ég held okkur öllum, er þetta bara næsti leikur. Ég held að við nálgumst hann eins og alla aðra leiki. Ef við spilum okkar leik getum við unnið,“ segir Esther. Amandine tekur í sama streng og segir einnig að þær séu ekkert of mikið að hugsa um andstæðinginn. „Við vitum auðvitað að Haukar eru á góðum spretti, þær eru með sjálfstraust og eru ekki að koma úr tapleik. Fyrir mér er það jákvætt því ef lið verður of sigurvisst mætir það ekki með sama hugarfari og eftir tapleik sem þú ert að hugsa um að bæta fyrir,“ segir hún og bendir á að í tapleiknum í nóvember hafi þær verið með 15 stiga forystu og tapað leiknum á lokamínútunni, fáar í hópnum og ferðuðust í fimm tíma á leikdegi. „Ég er sannfærð að ef við spilum okkar leik getum við unnið þær. Við vitum að það er hægt.“
Esther bætir við að þær hafi lært mikið frá tapleiknum gegn Haukum í nóvember. „Ég nýt þess bara að spila körfubolta. Þetta er næsti leikur og við elskum að spila,“ segir Esther, spurð um hugarfarið og undanúrslitaleik í bikar.
Sjötti maðurinn og orka inn á völlinn
„Stuðningurinn úr stúkunni hefur verið frábær í vetur,“ segir Esther spurð út í fólkið sem mætir á leikina og styður liðið. Hún og minnir á að í síðasta útileik, sigri gegn Tindastóli á Sauðárkróki í spennuleik, hafi stuðningsmenn Þórsliðsins næstum verið háværari en heimafólkið á Króknum.
„Stuðningsmennirnir hjálpa okkur mikið,“ segir Amandine. „Við erum með fámennan hóp og erfitt að finna orkuna, en það er eins og við séum með aukamann inni á vellinum því við höfum fólkið í stúkunni, sem ýtir okkur áfram og hvetur okkur. Þegar þú ert þreytt hugsarðu ekki um það því fólkið er að hvetja þig.“
„Stuðningsmennirnir hjálpa okkur mikið,“ segir Amandine Toi. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Esther er á sömu nótum og vill þakka fólkinu fyrir að koma á leikina í vetur. „Það er frábært ef þið haldið áfram að koma og styðja okkur, við þurfum á því að halda því þið eruð eins og sjötti maðurinn inni á vellinum. Við kunnum virkilega vel að meta það.“
„Þetta hefur verið erfitt með fáum leikmönnum,“ segir Amandine, „en ég held að það sé gaman að horfa á okkur spila. Mér finnst við hafa leikstíl sem er frábrugðinn öðrum liðum, við höfum gaman af þessu saman, við erum baráttulið og berjumst alveg til enda. Mig langar til að þakka fólkinu sem kemur á leikina, komið endilega að fylgjast með liðinu því þið verðið ekki fyrir vonbrigðum. Þetta er mikil skemmtun,“ segir hún og Esther bætir við að orkan komi ekki aðeins úr stúkunni heldur sé það allur hópurinn, líka þær sem sitja á bekknum hverju sinni. „Það gefur okkur styrk og við höfum ekki enn tapað heimaleik,“ segir Esther og greinilegt að þær hlakka báðar til að takast á við þetta verkefni með Þórsliðinu á morgun.
Þær vita líka hvað þær vilja og ætla að gera. „Markmið okkar er að vinna bikarinn,“ segir Amandine. „Eftir að við unnum meistara meistaranna vitum við að við getum unnið og núna einbeitum við okkur að þessum leik, en svo sjáum við hvað gerist næst. Markmiðið núna er að vinna þennan leik, komast í undanúrslitin og halda svo áfram.“
- Leikur Þórs og Hauka hefst kl. 15 á morgun, laugardag, og er spilaður í Íþróttahöllinni á Akureyri.