Fara í efni
Fréttir

Telja misráðið að rífa bæinn Naust III

Mynd: SKapti Hallgrímsson

Félagssamtökin Arfur Akureyrarbæjar telja misráðið að rífja bæinn Naust III. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi  í suðausturhorni Naustahverfis.

Ekki er lagst gegn áformum um uppbyggingu á umræddum reit en Arfur Akureyrarbæjar „telur hæglega hægt að fella íbúðarhúsið að Naustum að skipulagi sambærilega einbýlis og parhúsa,“ að því er segir í ályktun sem samþykkt var á stjórnarfundi nýverið.  

Síðan segir: „Í Glerárþorpi má t.d. finna fjölmörg eldri bæjarhús, sem felld voru inn í gatnaskipulag á sínum tíma og eru til mikillar prýði. Eldri býli sem eru felld inn í nýja byggð eru minnisvarðar um liðna tíð sem varðveita sögu svæðisins auk þess sem þau setja skemmtilegan svip á umhverfið.“

Ályktun Arfs Akureyrarbæjar er svohljóðandi í heild: vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Naust III

Þann 21. ágúst 2024 birtist eftirfarandi tilkynning á Skipulagsgátt: Skipulagsráð Akureyrarbæjar kynnir skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 drög að tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Naust III, lóð Minjasafns. Tillagan gerir ráð fyrir að útbúnar verði 7 einbýlishúsalóðir ásamt 2 parhúsa- og 5 ráðhúsalóðum á svæðinu. Svæðið er skilgreint sem íbúðarbyggð í aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 (ÍB13) og er þetta beint framhald af uppbyggingu Naustahverfis. Fyrst um sinn verður skipulagið áfangaskipt í 2 hluta, þar sem að gamli bærinn Naust III, fær að vera þar til að Minjasafninu verður fundinn varanlegur staður á Akureyri.

Ekki verður annað séð af þessari skipulagstillögu en að endanleg áform séu að rífa íbúðarhúsið Naust III og reisa tvö einbýlishús í staðinn. Um er að ræða sögufrægt hús, 93 ára gamalt, eitt af Naustabæjunum sem hverfið er kennt við og virðist húsið þar að auki í ágætis ásigkomulagi. Hér skal einnig áréttað að samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012, með áorðnum breytingum 2022, er kveðið á um umsagnarskyldu vegna niðurrifs eða breytinga bygginga frá árunum 1925-40 og fellur Naust III þar undir.

Arfur Akureyrarbæjar leggst ekki gegn áformum um uppbyggingu á þessum reit en telur misráðið að rífa Naust III og telur hæglega hægt að fella íbúðarhúsið að Naustum að skipulagi sambærilega einbýlis og parhúsa. Í Glerárþorpi má t.d. finna fjölmörg eldri bæjarhús, sem felld voru inn í gatnaskipulag á sínum tíma og eru til mikillar prýði. Eldri býli sem eru felld inn í nýja byggð eru minnisvarðar um liðna tíð sem varðveita sögu svæðisins auk þess sem þau setja skemmtilegan svip á umhverfið.

Við uppbyggingu á nýjum hverfum er jafnframt mikilvægt að tekið sé tillit til umhverfisáhrifa framkvæmdanna. Akureyrarbær hefur nýlega sett sér metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu þar sem m.a. kemur fram að meginmarkmið bæjarins séu að ná að lágmarki kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Eigi sú stefna fram að ganga þarf að leita markvissra leiða til þess að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda. Í því samhengi má benda á að byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir u.þ.b. 40% af öllum kolefnisútblæstri á heimsvísu og er stór hluti þess tilkominn vegna niðurrifs, brottflutnings og förgunar á mannvirkjum. Að rífa hús í þeim tilgangi að rýma fyrir nýjum byggingum getur varla talist vera í samræmi við umhverfis- og loftslagsstefnu bæjarins, né heldur yfirlýst markmið um vistvernd sem hugmyndafræði þéttingu byggðar gengur í grunninn út á.

Arfur Akureyrarbæjar áréttar að niðurrif eldri bygginga ætti ætíð að vera síðasta úrræði og hvetur bæjaryfirvöld til þess að skapa hvata fyrir verktaka og húseigendur til þess, að endurbyggja og endurnýta eldri byggingar fremur en að rífa þær.

 

Frétt Akureyri.net um drög að deiliskipulagi svæðisins:

Naust III: Einbýli, parhús og raðhús