Tekjurnar núll og nix eða myndarleg búbót?
Á meðal þess sem skiptar skoðanir eru um varðandi komur skemmtiferðaskipa er hvort tekjur af skipunum og farþegunum skipti raunverulegu máli fyrir efnahaginn í landi. Ætla má af niðurstöðu rannsóknar sem gerð var á þessari hlið mála að tekjurnar nemi tugum milljarða.
- Í FYRRADAG – Skemmtiferðaskipin betri en góð loðnuvertíð?
- Í GÆR – Gistifarþegarnir eyða mun hærri upphæðum
- Á MORGUN – Ráða vel við verkefnið en áhyggjur af mengun
Jóhann Viðar Ívarsson, starfsmaður Ferðamálastofu, var einn þeirra sem flutti erindi á kynningarfundi um helstu málefni sem tengjast komum erlendra skemmtiferðaskipa hingað til lands.
Helstu atriði úr fyrirlestri Jóhanns Viðars:
- Stóraukið hlutfall gistifarþega af skemmtiferðaskipum á árunum eftir heimsfaraldurinn ásamt fjölgun skipa sem heimsækja íslenskar hafnir hefur aukið mjög innlendar tekjur af farþegum skipanna á höfuðborgarsvæðinu og nærumhverfi þess.
- Hlutfall skiptifarþega, bæði þeirra sem gista og gista ekki, hækkaði úr 9% árið 2019 í 50% árin 2023 og það sem verður á komandi ári samkvæmt bókunum.
- Miðað við útgjaldatölur farþega samkvæmt könnun RMF áætlar Ferðamálastofa að bein útgjöld þessara ferðamanna innanlands í ár gætu hafa numið nálægt 20 milljörðum króna án virðisaukaskatts á landsvísu, þar af tæpum 14 milljörðum á höfuðborgarsvæðinu og um sex milljörðum á landsbyggðinni.
- Af þessum 20 milljörðum er áætlað að um tíu milljarðar króna hafi farið í afþreyingu og 3,4 milljarðar í gistingu á höfuðborgarsvæðinu.
- Ferðamálastofa telur varfærið mat á tekjum íslenskra flugfélaga af því að fljúga skiptifarþegum skipanna til og frá landinu að þær hafi numið um fjórum milljörðum króna, tekjur komuhafna skipanna hafi numið rúmlega þremur milljörðum og tekjur olíufélaganna af eldsneytissölu um 15 milljörðum. Einnig að stærstu ferðaskrifstofurnar og umboðsfyrirtækin sem þjónusta skipin hafi haft um 11 milljarða króna í tekjur, án virðisaukaskatts, af þessum viðskiptum.
- Samtals kunna tekjur þessara stærstu þjónustuaðila skipanna að hafa numið í kringum 52 milljörðum króna fyrir utan virðisaukaskatt á árinu 2023.
- Í þeirri tölu eru ótaldar tekjur hins opinbera af sköttum og gjöldum á þessa starfsemi, svo sem virðisaukaskattur, vitagjöld og fleira, ásamt tekjum margra minni fyrirtækja hringinn um landið sem til dæmis selja kost og aðrar vistir í skipin, afþreyingu, veitingar, minjagripi og fleira.
Upptöku af fyrirlestri Jóhanns Viðars um tekjur af komum skemmtiferðaskipa má finna í frétt Ferðamálastofu - sjá hér.
Ein af glærunum úr fyrirlestri Jóhanns Viðars Ívarssonar, starfsmanns Ferðamálastofu. Smellið á myndina til að skoða allar glærur hans með fyrirlestrinum.